Lokafrágangur hússins á Freyjugötureitnum hafinn

Framkvæmdir við húsið við Freyjugötu hafa tekið langa tíma – mun lengri en til stóð. Þessi mynd er frá því sumarið 2022 en síðan virðist lítið hafa gerst þar til nú. MYND: PF
Framkvæmdir við húsið við Freyjugötu hafa tekið langa tíma – mun lengri en til stóð. Þessi mynd er frá því sumarið 2022 en síðan virðist lítið hafa gerst þar til nú. MYND: PF

Enn stendur fjölbýlishúsið sem byggt var við Freyjugötu á Sauðárkróki autt og hafa ýmsir velt fyrir sér hvar þau mál standa. Í ágúst í fyrra, eða fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan, birti Feykir frétt þess efnis að verklok væru áætluð mánaðamótin þar á eftir og mátti skilja að stutt væri í að átta íbúðir hússins færu í leigu. Ekki gekk það eftir en samkvæmt heimildum Feykis er nú unnið að lokafrágangi íbúðanna og í kjölfarið verða þær auglýstar til leigu.

Feykir sendi fyrirspurn á Sigfús Inga Sigfússon, sveitarstjóra Skagafjarðar, varðandi stöðu mála, bæði húsið og önnur hús sem til stóð að byggja á Freyjugötureitnum. Hann segir að Brák íbúðafélag hses. hafi keypt eignina Freyjugötu 9 í sumar af Bæjartúni íbúðafélagi hses. en Brák er húsnæðissjálfseignarstofnun sem stofnað var árið 2022 af sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins.

„Brák var stofnuð í þeim tilgangi að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum húsnæðissjálfseignastofnunum með fáar íbúðir í rekstri. Brák er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna,“ segir Sigfús Ingi.

„Varðandi framhaldið með frekari uppbyggingu á Freyjugötureitnum þá erum við í samskiptum við lóðarhafa um framvindu mála þar og vonumst eftir niðurstöðu á næstu vikum,“ bætti Sigfús Ingi við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir