Lið Tindastóls komið í annað sætið

David Bercedo brýst upp hægri kantinn í gær. MYND: ÓAB
David Bercedo brýst upp hægri kantinn í gær. MYND: ÓAB

Nú í vikunni fór fram heil umferð í 4. deild karla í knattspyrnu og síðasti leikurinn fór fram í sunnangalsa á Króknum þegar Vestmannaeyingar í KFS mættu til leiks sprækir sem lækir. Leikurinn reyndist fjörugur og skoruðu liðin samtals fimm mörk en þau komu öll í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik 4-1 fyrir Tindastól sem voru því líka lokatölur.

Það var botnlið gestanna sem komst yfir eftir 12 mínútna leik en þar var á ferðinni Víðir Þorvarðarson. Ekki fengu gestirnir langan tíma til að fagna því Maniel Martinez jafnaði tveimur mínútum síðar og hann kom heimamönnum yfir á 20. mínútu. Stólarnir voru sterkari í fyrri hálfleik og á 39. mínútu bætti Dominick Furness við þriðja markinu eftir klafs í teig KFS. Niðurlútir gestirnir tóku miðju, sendu boltann til baka og þangað mættu hungraðir Stólar, stálu boltanum og David Bercedo skoraði fjórða markið af öryggi.

Gestirnir komu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og spil heimamanna gekk ekki jafn greitt fyrir sig og í fyrri hálfleik. Bæði lið fengu færi til að bæta við mörkum og sérstaklega voru Stólarnir óheppnir að bæta ekki við markatöluna undir lok leiksins. Líkt og í leiknum á undan þá vill fjara svolítið undan spili heimamanna þegar Dom þjálfari fer af velli, leikmenn vilja hanga ögn lengur á boltanum sem gefur yfirleitt ekki góða raun þó menn sýni lipra takta. Dom fór af velli í hálfleik í gær.

Sigurinn lyfti liði Tindastóls upp í annað sæti 4. deildar þar sem lið Hamars tapaði öðrum leiknum í röð en Hamarsmenn hafa setið í öðru sætinu megnið af sumrinu. Sterkt lið Ýmis er sem fyrr á toppnum, nú með 25 stig, Stólarnir eru með 22 og Hamar 20. Næstkomandi sunnudag eru það einmitt Hvergerðinar sem koma í heimsókn á Krókinn og þá er vissara að menn sé rétt stilltir og klárir á slag. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir