Leikur frá Lækjamóti II og Helga Una Björnsdóttir sigurvegarar í A-flokki gæðinga á NM í hestaíþróttum
Norðurlandamótið í hestaíþróttum fór fram á Álandseyjum um sl. helgi en þar var á meðal keppenda Vestur-Húnvetningarnir Helga Una Björnsdóttir, frá á Syðri-Reykjum, og Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal á Lækjamóti. „Leikur frá Lækjarmóti kom, sá og sigraði í A-flokki gæðinga með Helgu Unu Björnsdóttur í hnakknum,“ segir á heimasíðu Landssambands hestamanna.
Fram kemur í fréttinni að Helga Una hafi tekið við hestinum í úrslitum fyrir James Faulkner sem kom tveimur hestum inn í úrslit í A-flokki. Sjálfur reið hann á Eldjárni frá Skipaskaga og enduðu þeir í 7. sætinu.
Guðmar Hólm og Kjarkur frá Lækjarmóti II lentu í 8. sæti í V1 unglinga með einkunnina 6,37 eftir að hafa endað í 7. sæti i forkeppni með einkunnina 6,47. Betur gekk hjá þeim félögum í T2 ungmenna þar sem þeir lönduðu 5. sætinu með 5,58.
Á síðu LH segir að Norðurlandamótin séu iðulega töluvert frábrugðin heimsmeistaramótunum, og þátttaka landsliðsins byggi að stærstum hluta á knöpum sem taka þátt á lánshestum frá Norðurlöndunum og keppa því flestir á hestum sem þeir þekkja takmarkað sem gerir samkeppnisstöðu liðsins á mótinu frábrugðna keppendum annarra landsliða, sem mæta til leiks með þrautreynd keppnispör í allar greinar. Að þessu sinni var aðeins einn knapi sem flutti með sér hest frá Íslandi til þátttöku á mótinu.
Ennfremur segir að landsliðsþjálfarar Íslands og landsliðsnefnd hafi snemma árs tekið þá ákvörðun að áhersla yrði lögð á unglinga- og ungmennaflokkana á mótinu þetta árið, og Ísland hafi því sent nokkuð stórt lið til þátttöku í yngri flokkum mótsins, en á móti fámennt en reynslumikið lið fullorðinna knapa.
Mótið þótti takast vel en vallaraðstæður hafi verið ögn erfiðar á aðalvelli mótsins, og höfðu mótshaldarar í nógu að snúast við að halda vellinum í nothæfu ástandi á meðan á keppni stóð.
„Lið Svíþjóðar vann liðabikarinn mótsins sem stigahæsta þjóðin og unnu til fjölda verðlauna á mótinu. Svíar voru sigursælir í skeiðgreinum mótsins í öllum flokkum og unnu til fjölda gullverðlauna þar ásamt góðum árangri í hringvallargreinum.
Danir voru sigursælir í hringvallargreinum íþróttakeppninnar og áttu sigurvegara í tölti og fjórgangi fullorðinna ásamt því að eiga sigurvegara í öllum flokkum slaktaumatölts T2.
Lið Íslands komst á verðlaunapall í mörgum greinum á mótinu, og munaði heldur betur um gullverðlaun Matthíasar Sigurðssonar í Tölti T1 ungmenna, og Eysteins Tjörva Kristinssonar í ungmennaflokki gæðingakeppninnar, en þeir lögðu sín lóð heldur betur á vogarskálar liðsins,“ segir í frétt LH sem hægt er að nálgast HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.