Leikfélag Hofsóss setur upp Saumastofuna :: Leikhópurinn hinn besti kokteill
Leikfélag Hofsóss æfir nú á fullum krafti en stefnt er á að frumsýna Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarsson laugardaginn 25. mars nk. en stefnt er á tíu sýningar. Saumastofan er leikrit með söngvum sem samið var og sett upp af Leikfélagi Reykjavíkur í IÐNÓ tilefni af kvennaárinu 1975 og gekk þar lengi við miklar vinsældir.
Leikritið segir frá degi í lífi starfsfólks á saumastofu en ein kvennanna á afmæli og slá þær upp veislu í tilefni þess og segir Fríða Eyjólfsdóttir, formaður félagsins, að velt er upp ýmsum spurningum um stöðu konunnar. „Þrátt fyrir að leikritið sé ekki alveg nýtt af nálinni á það samt ótrúlega vel við enn í dag og hefur margsinnis verið sett á fjalirnar hjá hinum ýmsu áhugaleikfélögum landsins,“ útskýrir hún.
„Leikstjórinn okkar er María Sigurðardóttir, mikill reynslubolti í leiklist. María var um tíma leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar og hefur hún áralanga reynslu sem leikstjóri í atvinnuleikhúsi og hjá hinum ýmsu áhugaleikfélögum. Flestir þekkja hina frábæru fjölskyldumynd Regínu sem María leikstýrði en auk þess hefur hún komið að mörgum vinsælum kvikmyndum sem aðstoðarleikstjóri. Má þar sem dæmi nefna Bíódaga, Djöflaeyjuna og Engla alheimsins.“
Að sögn Fríðu hófust æfingarnar þann 16. febrúar en í sýningunni eru níu leikarar. „Hópurinn í kringum sýninguna er mikið stærri og ekki komin endanleg tala enn á það hve margir muni koma þar að. Trúlega verða það um 15-20 manns til viðbótar svo þetta verður orðið ansi stórt hlutfall af íbúafjöldanum í okkar litla þorpi,“ segir Fríða. „Leikhópurinn samanstendur af þessum gömlu góðu leikurum sem hafa verið á fjölunum hjá leikfélaginu árum saman en sem betur fer getum við státað af nýjum og ferskum meðlimum til viðbótar svo þetta er bara hinn besti kokteill. Aldursbilið er breitt eða frá 15 til rúmlega 60 ára.“
Hvernig gengur að virkja fólk til starfa með Leikfélaginu?
„Heilt á litið má segja að það gangi ótrúlega vel og við höfum úr að spila traustum hópi fólks sem hefur verið með okkur lengi og yfirleitt höfum við ekki átt erfitt með að fá fólk til að aðstoða okkur. En það sem hefur háð okkur í gegnum tíðina er karlmannsleysið í leikarahópnum sem setur okkur ákveðnar skorður í vali á verkefnum.“
Í lokin segist Fríða gjarna vilja koma á framfæri þökkum til allra sem á einhvern hátt leggja sitt af mörkum til að sýningin geti orðið að veruleika. „Þeir eru fjölmargir, mun fleiri en sá hópur sem stendur beint að sýningunni. Ég hlakka svo bara til að sjá sem flesta í leikhúsi hjá okkur og vonast til að kvöldstund á Saumastofunni verði hin besta skemmtun.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.