Kvöldið var fagurt og gott veður í dag

Myndað í Blönduhlíðinni. Réttarholt í forgrunni en Tindastóll á bak við. MYNDIR: ÓLI ARNAR
Myndað í Blönduhlíðinni. Réttarholt í forgrunni en Tindastóll á bak við. MYNDIR: ÓLI ARNAR

Kvöldið í Skagafirði var fagurt en kalt í gærkvöldi og vindurinn í verkfalli. Það var nánast sama hvar drepið var niður fæti, það var bara blankinn. Í dag er gert ráð fyrir heiðskýru og sól um allt Norðurland vestra og raunar víðast hvar á landinu. Reiknað er með hita í kringum 12 gráðurnar og húðlatri suðvestanátt. Svo virðist sem um sé að ræða dagstilboð hjá Veðurstofunni.

Það skiptat síðan á skin og skúrir næstu daga en þegar líður að helgi snýst í norðanátt, hitinn lækkar og boðið verður upp á fría regndropameðferð í nokkra daga.

Raunar er það þannig að ef norska langtímaspáin er skoðuð á yr.no þá má sjá að það er lítil sól í kortunum og þannig hefur það verið í nær allt sumar. Spáin nær yfir níu daga í senn, fjögur veðurtákn fyrir hvern dag; nótt, morgun, dag og kvöld. Táknin eru því alls 36 fyrir þessa níu daga og á myndinni sem fylgir fréttinni sést að aðeins sex tákn af 36 sýna sól eða sólarglætu. Og það er nú bara óvenju gott miðað við spár sumarsins!

Það er svo annað mál að margir gefa þessum spám ekki háa einkunn og eru jafnvel á þeim buxunum að sólin hafi látið sjá sig oftar og meira en þessir norsarar hafa gefið okkur vonir um. Það er því ekkert annað í stöðunni en að brosa í gegnum tárin og gera gott úr því sem boðið er upp á.

Hér má sjá nokkrar myndir úr Skagafirði frá í gærkvöldi ... og veðurspána fyrir Krókinn næstu níu daga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir