Kveðja til íbúa Fjallabyggðar
Karlmaður var stunginn til bana á Ólafsfirði aðfaranótt mánudags og er þrennt í gæsluvarðhaldi í kjölfarið; tvær konur og einn karl. Í yfirlýsingu frá bæjarstjóra Fjallabyggðar, Sigríði Ingvarsdóttur, kemur fram að samfélagið sé harmi slegið í kjölfar atburðarins. Nágrannasveitarfélögin Skagafjörður og Dalvíkurbyggð hafa fyrir hönd íbúa sent innilegar samúðarkveðjur til íbúa Fjallabyggðar.
„Mannlegur harmleikur hefur átt sér stað í litlu byggðarlagi norður í landi. Harmleikur sem snertir heilt bæjarfélag og íbúa þess. Sumir einstaklingar eru í kjölfarið bognir, aðrir brotnir. Þegar að sorgaratburður sem þessi á sér stað, eru það ekki einungis fórnarlömb og gerendur sem eiga um sárt að binda, heldur einnig fjölskyldur, vinir og aðstandendur þeirra sem eiga í hlut,“ segir m.a. í yfirlýsingar Sigríðar. „Lögreglan vinnur faglega að rannsókn málsins og mun upplýsa staðreyndir þess eftir því sem þær liggja fyrir. Við skulum öll hafa í huga, að aðgát skal ávallt höfð í nærveru sálar. Á það sérstaklega við á erfiðum stundum sem þessum,“ segir ennfremur.
Kveðja Skagafjarðar til íbúa Fjallabyggðar má lesa hér að neðan:
Kæra sveitarstjórn og íbúar Fjallabyggðar
Fyrir hönd íbúa Skagafjarðar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur vegna þeirra atburða sem áttu sér stað í Ólafsfirði aðfaranótt mánudags.
Hugur okkar er hjá okkar kæru nágrönnum og öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna atburðanna.
Sveitarstjórn Skagafjarðar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.