Kosning hafin á manni ársins á Norðurlandi vestra

Eins og undanfarin ár stendur Feykir fyrir kjöri á manni ársins á Norðurlandi vestra. Gefst íbúum á svæðinu og öðrum lesendum Feykis kostur á að velja úr hópi þeirra sem tilnefndir voru af lesendum. Átta tilnefningar bárust sem teknar voru til greina í kjörið.

Hægt verður að greiða atkvæði á vefnum Feykir.is eða senda atkvæði í pósti á: Feykir, Borgarflöt 1, 550 Sauðárkróki. Kosningin hefst í dag, föstudaginn, 22. desember og lýkur kl. 12 á hádegi á nýársdag, 1. janúar.

Tilnefndir eru, í stafrófsröð:

Dagur Þór Baldvinsson - formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls

Dagur var sá aðili sem stýrði öllu því starfi sem Tindastóll stóð að og vakti athygli um allt land og endaði með að karlalið Tindastóls varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn,“ segir í rökstuðningi. Það má með sanni segja að Dagur hafi komið inn í starf körfuknattleikseildar með mikinn metnað og hafi hvergi gefið eftir í þeirri vinnu sem þarf að inna af hendi til að láta drauminn um Íslandsmeistaratitilinn rætast. Í haust var enn gefið í og bæði karla- og kvennaliðið eru í góðum gír.

 

Guðný Guðmundsdóttir - sjálfboðaliði og jákvæðnisprengja

Sjálfboðaliðinn kom sterkur inn í Skagafirði á árinu. Guðný er sannkölluð jákvæðnisprengja, ávallt reiðubúin að hjálpa til. Hún smitar hlýju og gleði þannig að mestu fílupúkar þurfa að bólusetja sig ef hún er nærri.

 

Karólína í Hvammshlíð - hvunndagshetja og baráttukona

Karólína í Hvammshlíð hefur farið fyrir því að reyna að leita leiða við að útrýma riðu úr íslensku sauðfé. Hennar þrotlausa vinna í samvinnu við erlenda vísindamenn í báráttunni við þennan vágest hefur skilað því að nýrri nálgun verður nú héðan í frá beytt. Karólína hefur sýnt það að með mikilli þrautseigju er hægt að velta við þungum steinum.

 

Marinó Björnsson og Guðmundur Grétar - tónleikahaldarar

Marinó og Guðmundur héldu minningartónleika um Skúla Einarsson frá Tannstaðabakka. Þar fengu þeir 45 manns til liðs við sig og söfnuðu 850 þúsund krónum í Velferðarsjóð Húnaþings vestra. Yfir 200 manns mættu á tónleikana sem haldnir voru undir slagorðinu Minning - eining - samstaða - samhugur.

 

Ólöf Ólafsdóttir - algerlega mögnuð manneskja

Ólöf hefur um árabil saumað bútasaumsteppi, púða o.fl. sem hún hefur selt. Hefur allt andvirði sölu hennar runnið í Velferðarsjóð Húnaþings vestra. Á sjö árum hefur Ólöf gefið fjórar milljónir til sjóðsins. Ólöf greindist með Parkinsons fyrir nokkrum árum en hún hefur ekki látið það aftra sér í að lifa lífinu. Hún stundar líkamsrækt og hreyfingu af kappi. Saumaskapurinn veitir henni svo mikilvæga þjálfun fínhreyfinga. Ólöf er sönn hetja fyrir að láta gott af sér leiða þrátt fyrir veikindi sín og er afar góð fyrirmynd.

Pétur Erlingsson - starfsmaður Skagafjarðarhafna

Hann er fulltrúi alls þess fullorðna fólks sem rífur sig í nám eftir langt skólahlé. Allt er hægt og það er aldrei of seint að hefja nám ef það er það sem mann langar til. Pétur fékk viðurkenningu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í haust sem fyrirmynd í námi fullorðinna.

Pétur Rúnar Birgisson - Íslandsmeistari í körfubolta

Pétur er fulltrúi leikmanna Tindastóls sem urðu Íslandsmeistari í körfuknattleik í vor. Herra Skagafjörður er ekki bara frábær leikmaður og leiðtogi inni á vellinum, hann er líka frábær fyrirmynd fyrir unga íþróttaiðkendur.

 

Reynir Grétarsson - bjartsýnis- og athafnamaður á Blönduósi

Reynir og samstarfsfólk hans hjá InfoCapital hafa blásið ferskum vindum í gömlu heimabyggð Reynis en hann er fæddur og uppalinn á Blönduósi. Uppbyggingin í gamla bænum hefur smitað út frá sér jákvæðni og bjartsýni og verið með til að draga fram þá möguleika sem eru til staðar á svæðinu. Reynir hefur sjálfur tekið mikinn þátt í uppgerð gömlu húsanna sem hafa verið gerð upp af fagmensku og natni og ekki síst virðingu fyrir sögu húsanna og gamla bæjarhlutans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir