Jólagaman í Varmahlíðarskóla
Síðasta vikan fyrir jólafrí þykir sennilega flestum nemendum í grunnskólum landsins skemmtilegur tími enda er ýmislegt brallað og skólastarfið brotið upp með ýmsu jólatengdu gamani. Þetta má glögglega sjá á heimasíðu Varmahlíðarskóla í Skagafirði þar sem sjá má fréttir og myndir af piparkökuhúsakeppni, jólavinnu á yngsta stigi og rökkurgöngu.
Sagt er frá því að nemendur á yngsta stigi skólans fengu heimsókn frá leikskólakrökkum, slökkviliðið kom og hitti 3. bekk,það var jólakortagerð, jólaföndur með skólahóp leikskólans, æfingar fyrir helgileikinn og margt fleira skemmtilegt sem unnið var að í vikunni.
Síðastliðinn fimmtudag fór fram hin árlega keppni um flottasta piparkökuhúsið en það eru nemendur á unglingastigi sem eru í bakstursvali í skólanum sem taka þátt. „Keppnin var hin glæsilegasta og mátti meðal annars sjá dómkirkjuna í Niðarósi, Flugumýrarkirkju og Glaumbæjarkirkju. Allir nemendur og allt starfsfólk er með atkvæðarétt. Við fengum einnig tvo dómara til að aðstoða okkur en það voru þær Þorbjörg Jóna matráðurinn okkar og Bryndís Bjarnadóttir fyrrverandi heimilisfræðikennari hjá okkur,“ segir í frétt á heimasíðunni. Úrslitin verða síðan kunngjörð á morgun, mánudaginn 18. desember, en þá verða litlu jólin í Varmahlíðarskóla.
Á föstudagsmorgni fóru nemendur og kennarar í rökkurgöngu í skóginum. „Fyrsta stopp var í Sigurðarlundi. Þar voru sungin nokkur lög. Næsta stopp var í Þuríðarlundi og þar var einnig sungið. Að lokum var svo boðið upp á kakó og piparkökur við aðstöðuhúsið á tjaldsvæðinu þar sem búið var að henga upp stóra jólaseríu,“ segir í frétt.
Myndirnar sem hér fylgja eru fengnar af láni úr fréttunum en enn fleiri myndir má finna á síðu skólans >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.