Jökulárnar í Skagafirði | Álfhildur Leifsdóttir skrifar
Unnið hefur verið að áætlunum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði í hartnær hálfa öld. Krafa um virkjun verður sífellt háværari, umræðan um orkuskort vex og virkjanaglöðum sveitarstjónarmönnum verður tíðrætt um glötuð tækifæri í héraði vegna orkuskorts. En þó eru ekki allir sveitarstjórnarmenn á þeim buxunum.
Rökstuðningur faghóps
Fyrir mig var fagnaðarefni að lesa rökstuðning faghópa flokkunartillögu þriðja áfanga rammáætlunar hvað varðar jökulárnar í Skagafirði þar sem lagt er til að þær séu teknar úr biðflokki og settar í verndarflokk. Í rökstuðningum segir meðal annars: “Vatnasvið Héraðsvatna er með hæsta verðmætamat allra landsvæða sem fjallað var um í faghópi 1 í 3. áfanga og þá er virkjunarkosturinn Skatastaðavirkjun C með næsthæstu áhrifaeinkunn allra virkjunarkosta sem faghópurinn fjallaði um. Virkjunarkosturinn er á svæði sem er óbyggt víðerni samkvæmt lagalegri skilgreiningu og virkjun á svæðinu mundi hafa í för með sér umtalsvert rask á hálendi, svo og á sífrerarústum og fleiri fyrirbærum sem Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð á. Virkjun myndi slíta sundur vistkerfi og samfélög lífvera, hafa mikil neikvæð áhrif á vistgerðir með verulegt verndargildi samkvæmt náttúruverndarlögum og valda mikilli röskun vegna breytinga á rennsli og framburði, sérstaklega á flæðiengjum sem hafa mikið vistfræðilegt gildi og eru þær umfangsmestu á landinu. Þá gætu framkvæmdirnar spillt stórum minjaheildum í Austur- og Vesturdal frá árunum 870-1400, sem jafnvel eru einstakar á heimsvísu. Einnig yrði mikil skerðing á sjónrænni fjölbreytni og á fágætum landslagsgerðum. Í niðurstöðum faghóps 2 kemur fram að jökulsárnar í Skagafirði séu bestu ár á landinu, og jafnvel í Evrópu, til flúðasiglinga og að Jökulsá eystri sé sú eina á landinu þar sem hægt er að fara í tveggja daga siglingu. Árnar séu því mjög mikilvægar fyrir ferðaþjónustu bæði á landsvísu og í héraði. Virkjun þessara vatnsfalla mundi því í raun hafa meiri áhrif en meðaltal áhrifaeinkunna faghópsins gefur til kynna.”
Hvað er rammaáætlun?
Ásókn ýmissa hópa í auðlindir náttúru Íslands er mikil og leiðir oft til ágreinings um nýtingu landsins. Rammaáætlun er verkfæri til að greiða úr þessum ágreiningi og um leið samheiti yfir ákveðin lög, ferla og aðferðafræði sem þróuð hafa verið til að feta stíg milli nýtingar og verndunar orkuauðlinda landins, sem eru helstu sameiginlegu verðmæti okkar sem byggjum landið.
Rammaáætlun hverju sinni er leidd af verkefnastjórn sem er skipuð af pólitíkinni. Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar er að veita ráðherra ráðgjöf um vernd og orkunýtingu landsvæða. Verkefnisstjórnin leitar samráðs við hagsmunaaðila, stofnanir hins opinbera, almenning og frjáls félagasamtök á ýmsum stigum vinnunnar við rammaáætlun.
Verkefnastjórn skipar faghópa sem voru fjórir við rammaáætlun 3. Þessir faghópar eru skipaðir sérfræðingum á hinum ýmsu sviðum vísinda og í ýmiss konar auðlindanýtingu. Faghóparnir safna gögnum, hver á sínu fagsviði, um þau svæði sem eru til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn. Faghópur 1 metur náttúrmat og menningaminjar, en það eru þættir sem vega mjög þungt í matinu. Faghópur 2 metur aðra nýtingu eins og ferðaþjónustu, beit og veiðar. Faghópur 3 metur samfélagsleg áhrif virkjana og faghópur 4 metur efnahagsleg áhrif virkjana. Verkefnastjórn skilar flokkunartillögu til ráðherra sem getur breytt þeim með ákveðnu samráðsferli. Að lokum fer tillagan fyrir Alþingi og er tillaga um rammaáætlun 3 einmitt á leið þangað.
Hver yrðu áhrifin?
Af rökstuðningi faghópanna hvað varðar Jökulárnar í Skagafirði má sjá að faghópur 1 sem metur náttúrumat og menningarminjar hefur sterk rök fyrir því að setja árnar í verndarflokk. Áætlanir um Villinganesvirkjun voru á sínum tíma settar í mat á umhverfisáhrifum og segir m.a. í úrskurði skipulagsstofnunar frá árinu 2001: “Skipulagsstofnun telur ljóst að allt að 33 MW Villinganesvirkjun með 1,7 km² inntakslóni, sem mun færa hluta af gljúfrum Jökulsánna í kaf, muni skerða þar jarðmyndanir, fjölbreytt landslag og gróðurfar ásamt varpstöðum heiðargæsar og hrafns.” Þar er einnig fjallað um neikvæð áhrif á útivist og ferðamennsku, veiði, setmyndun og rof, vatnalíf, áhrif á fiska og fugla og auðvitað sjónræn áhrif, en stórar raflínur munu að sjálfsögðu rísa í tengslum við virkjun sem þessa. Náttúran, eins og við þekkjum hana í dag, yrði gjörbreytt á stóru svæði og þar undir myndu einnig falla friðlýst svæði eins og Miklavatn.
Í umsögn Byggðastofnunar í sömu skýrslu er talið að neikvæð áhrif á ferðaþjónustu geti verið meiri en talið sé í matsskýrslunni. Að bygging Villinganesvirkjunar muni leiða til meiri fækkunar starfa í ferðaþjónustu en skapist við rekstur hennar. Þar er vísað til fljótasiglinganna sem er einstakur segull í ferðaþjónustu Skagafjarðar á heimsvísu eins og kemur fram í rökstuðningi faghópanna. Einnig kemur fram að lónið muni því fyllast af aur á 80 til 100 árum við óbreytt ástand, sem ekki sé raunhæft að skola úr lóninu svo að neinu nemi. Virkjunin yrði því ekki langlíf en sannarlega með óafturkræfum afleiðingum á náttúruna sem komandi kynslóðir þyrftu að búa við.
Hvenær er nóg nóg?
Um 78% raforku landsins fara til stóriðju, að mestu til álveranna þriggja. Rúmlega 5% fara í gagnaver sem m.a. grafa eftir svokölluðu bitcoin og skapa afar fá störf. Um 5% fara til allra heimila landsins. Margir hafa bent á að næga raforku sé að finna nú þegar í raforkukerfi landsins, hana þurfi hins vegar að nýta betur. Í einhverjum tilfellum er hægt að efla virkjanir sem nú þegar eru í notkun án þess að raska náttúrunni frekar en orðið er. Bætt orkunýtni ætti að vera forsenda orkuskipta, enda er ekki trúverðugt að fleiri virkjanir þurfi að rísa til að stíga næstu skref í loftlagsmálum. Tækninni í orkunýtingu fleygir fram, endurnýting orku og nýting glatvarma er komin mun lengra á veg í nágrannalöndunum og þar er hægt að gera mikið betur hér á landi. Tæknin kemur áfram til með að skapa tækifæri til betri nýtingar orku og breyttar orkunotkunar, á það eigum við að horfa en ekki fleiri virkjanir.
Vonandi horfa komandi kynslóðir til baka á virkjanaáform í náttúruperlum landsins með sama hugarfari og við rifjum upp reykingar í flugvélum. Að þessi áform séu barns síns tíma og að aukin þekking og breytt tækni í orkunýtingu færi okkur á annan og betri veg, náttúrunnar vegna. Því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Álfhildur Leifsdóttir
sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra í Svf. Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.