Íslandsmeistari annað árið í röð :: Íþróttagarpurinn Hjördís Halla Þórarinsdóttir
Íslandsmót barna og unglinga í hestaíþróttum fór fram í Borgarnesi fyrir skömmu og sagði Feykir frá afar góðum árangri systranna Hjördísar Höllu og Þórgunnar Þórarinsdætrum á Sauðárkróki. Þórgunnur var Íþróttagarpur Feykis í fyrsta blaði ársins en nú er komið að Hjördísi Höllu sem varð Íslandsmeistari í tölti í barnaflokki á hestinum Flipa frá Bergsstöðum á téðu Íslandsmóti og annað sætið varð hennar í fjórgangi.
Stelpurnar eru dætur þeirra Sigríðar Gunnarsdóttur, sóknarprest á Sauðárkróki, og Þórarins Eymundssonar, hestamanns og afreksmanns í hestaíþróttum, en hann hefur aðstoðað þær systur eftir föngum og þjálfað.
Hjördís byrjaði tveggja ára gömul að fara á hestbak en hefur riðið ein frá því hún var fimm ára. Hún segir að vel hafi gengið í keppnum og hefur unnið mörg mót á Sauðárkróki og á Hólum. Í fyrra fór Hördís á sitt fyrsta Íslandsmót og varð þá tvöfaldur Íslandsmeistari, í fimi og stigahæsti knapinn. Til að ná árangri þarf vissulega að halda vel á spöðunum.
„Ég þjálfa keppnishestinn minn oftast fimm sinnum í viku. Ég reyni að hafa þjálfunina fjölbreytta, þjálfa inni í reiðhöll, fer í reiðtúra, æfi á hringvellinum, hringteymi og stundum læt ég Flipa hlaupa frjálsan í rekstri. Á sumrin tek ég hann með í stuttar hestaferðir. Reglulega tek ég æfingu með pabba sem er duglegur að kenna mér og undirbúa mig fyrir keppni. Ég gæti þetta ekki án hans. Skemmtilegast er að byggja upp hestinn og sjá framfarir og keppa,“ segir Hjördís sem var þess fullviss að hún gæti unnið á Íslandsmótinu en vissi auðvitað ekki hvort það gengi upp.
Hún segir það gaman að þjálfa Hálegg og reyndar alla hesta þegar hún er spurð um hvort annar hestur heilli hana. „Næst ætla ég kannski að keppa á Takti sem Þórgunnur systir mín hefur verið að keppa á,“ segir hún.
Hvernig er tilfinningin að vera Íslandsmeistari? -Hún er æðisleg, ég er mjög stolt. Mjög góð tilfinning.
Stundar þú aðrar íþróttir? -Já, körfubolta og fótbolta.
Íþróttafélag eða félög: -Hestamannafélagið Skagfirðingur og Tindastóll
Helstu íþróttaafrek: -Tvöfaldur Íslandsmeistari í hestaíþróttum 2021 og annað sæti með Tindastóli á Símamótinu.
Skemmtilegasta augnablikið: -Hestaferð í Vatnsdalnum.
Neyðarlegasta atvikið: -Þegar Flipi rauk með mig í keppni.
Einhver sérviska eða hjátrú? -Nei, en ég trúi á stjörnumerkin.
Uppáhalds íþróttamaður? -Sara Björk Gunnarsdóttir.
Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Keppa við systur mína í fjórgangi. Hún á Hnjúk og ég á Flipa.
Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Ég myndi vinna hana þegar ég tæki fram úr henni á greiða töltinu.
Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Ríða yfir Heljardalsheiði.
Lífsmottó: -Gerðu þitt besta.
Helsta fyrirmynd í lífinu: -Pabbi og mamma. Pabbi kennir mér allt á hesta og mamma allt hitt.
Hvað er verið að gera þessa dagana? -Slaka á, undirbúa mig fyrir skólann og þjálfa hestana.
Hvað er framundan? -Nú er keppnistímabilið að verða búið svo er bara að halda áfram að þjálfa fyrir næsta ár.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? -Láttu drauma þína rætast!
/Áður birst í 30. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.