Íris Björk og Ívar Örn í úrslitum Gulleggsins

PellisCol frumkvöðlateymið frá Sauðárkróki. Íris Björk Marteinsdóttir og Ívar Örn Marteinsson. MYND AF SÍÐU NORÐANÁTTAR
PellisCol frumkvöðlateymið frá Sauðárkróki. Íris Björk Marteinsdóttir og Ívar Örn Marteinsson. MYND AF SÍÐU NORÐANÁTTAR

Lokakeppni Gulleggsins fer fram þann 10. febrúar í Grósku og í beinni útsendingu á visir.is þar sem topp tíu verkefnin verða kynnt. Gulleggið er stærsta og elsta frumkvöðlakeppni Íslands og þar hafa fjölmörg sprotafyrirtæki stigið sín fyrstu skref og má þar nefna Controlant, Meniga og SolidClouds. Eitt frumkvöðlateymi af landsbyggðinni er í úrslitunum í ár en það er PellisCol, skipað systkinunum Írisi Björk og Ívari Örn Marteinsbörnum frá Sauðárkróki.

PellisCol ætlar að þróa hágæða náttúrulegar Spa húðvörur úr hreinu íslensku kollageni fyrir baðlón, heilsulindir og hótelog er, samkvæmt upplýsingum Feykis, í samstarfi við Skógarböðin á Akureyri.

„Við hjá PellisCol erum hrikalega spennt að fá að taka þátt í Gullegginu. Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur .Við höfum verið svo heppin að fá ómetanlegan stuðning frá Norðanáttarteyminu á okkar vegferð og þetta er árangurinn af því,” er haft eftir systkinunum í frétt á vef Norðanáttar. Norðanátt er hreyfiafl nýsköpunar á Norðurlandi sem miðar að því að auka fjárfestingar á svæðinu og skapa kraftmikið umhverfi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem vinna að nýsköpun með áherslu á loftslagsmál og hringrásarhagkerfið.

Almenningur kýs sigurvegara Gulleggsins

Gulleggið, frumkvöðlakeppnin, er haldin af KLAK – Icelandic Startups og hefur farið fram árlega síðan 2008. Tilgangurinn er að nýjar hugmyndir fái brautargengi og koma reyndir frumkvöðlar, fjárfestar og sérfræðingar að keppninni á hverju ári og veita leiðsögn og gefa endurgjöf. Rýnihópur, sem telur yfir 70 einstaklinga reyndra aðila úr atvinnulífinu og nýsköpunarsenunni, fór yfir 101 hugmynd frá upprennandi frumkvöðlum og er nú búið að velja úr tíu hugmyndir sem keppa um Gulleggið 2023.

Þeir frumkvöðlar sem komust í Topp 10 tóku þátt í vinnustofum um síðustu helgi þar sem keppendur unnu í sínum kynningum með aðstoð sérfræðinga úr atvinnulífinu og fengu að auki framkomuþjálfun svo allir yrðu með allt sitt á hreinu fyrir aðalkeppnina sem fram fer föstudaginn 10. febrúar. Sem fyrr segir fer keppnin fram í Grósku og er opin öllum. Þar munu björtustu vonirnar keppa um Gulleggið sem hefur verið stökkpallur fyrir fjölmörg fyrirtæki í gegnum tíðina.

Keppnin verður sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 Vísir, visir.is og á gulleggid.is. Dómnefnd sker úr um hver vinnur Gulleggið en vinsælasta teymið er kosið af almenningi í netkosningu á gulleggid.is.og hvetja systkinin í PellisCol fólk til að taka þátt í kosningunni – og væntanlega að velja rétt!

Hér má kynna sér teymin 10 sem komust í úrslit >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir