Íbúum fjölgar eða stendur í stað í öllum landshlutum nema á Norðurlandi Vestra

Þjóðskrá hefur birt samantekt sína um íbúafjölda eftir sveitarfélögum í febrúar 2023 og kemur þar fram að meðan fækkar á Norðurlandi vestra, fjölgar íbúum eða stendur í stað í öðrum landshlutum. Íbúum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 601 íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2022 til 1. febrúar 2023 og íbúum Kópavogsbæjar fjölgaði á sama tímabili um 99 íbúa. Íbúum Akureyrarbæjar fækkaði á tímabilinu um 18 íbúa, í Reykjanesbæ hefur fjölgað um 159 íbúa og í Sveitarfélaginu Árborg fjölgaði um 88 íbúa, eftir því sem fram kemur á skra.is.

Fjölgar hlutfallslega mest í Kaldrananeshreppi

Þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar á íbúafjölda þá hefur íbúum Kaldrananeshrepps fjölgað hlutfallslega mest síðastliðinn mánuð eða um 6,2% en íbúum þar fjölgaði um sjö íbúa. Hlutfallslega fjölgaði íbúum næst mest í Skorradalshreppi eða 5,2% en þar fjölgaði íbúum um þrjá einstaklinga síðastliðinn mánuð. Af 64 núverandi sveitarfélögum þá fækkaði íbúum í 19 sveitarfélögum en fjölgaði eða stóð í stað í 45 sveitarfélögum.

Fækkar á Norðurlandi

Íbúum fjölgar eða stendur í stað í öllum landshlutum nema á Norðurlandi Vestra, þar fækkar um 0,3% eða 23 íbúa og teljast þeir nú vera 7.423 talsins. Hlutfallslega mest hefur fjölgunin verið á Suðurnesjum eða um 0,8% sem er fjölgun um 257 íbúa. Samtals fjölgar íbúum á landinu öllu um 1380 frá 1. desember 2022 til. 1. febrúar 2023 sem er um 0,4%.

Fækkun varð í tveimur sveitarfélögum af fimm á Norðurlandi vestra, um tíu í Húnaþingi vestra og 23 í Skagafirði. Aftur á móti fjölgaði um fjóra á Skagaströnd og sex í Húnabyggð en í Skagabyggð stóð íbúafjöldinn í stað.

Í frétt Þjóðskrjár má finna krækju á skrá yfir fjölda íbúa eftir sveitarfélögum í byrjun mánaðarins og samanburð við íbúatölur frá 1. desember fyrir árin 2019-2022. Þessar tölur eru byggðar á skráningu Þjóðskrár á fjölda einstaklinga sem eru skráðir með búsetu hér á landi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir