Íbúum á Norðurlandi vestra fækkar á milli ára
Á huni.is segir að samkvæmt tölum frá Þjóðskrá um íbúafjölda sveitarfélaga 1. febrúar síðastliðinn er Norðurland vestra nú fámennasti landshluti Íslands. Vestfirðir hafa áður verið fámennasti landshlutinn en nú eru Vestfirðingar orðnir fjölmennari en íbúar á Norðurlandi vestra. Munurinn er ekki mikill en á tímabilinu 1. desember 2023 til 1. febrúar 2024 fjölgaði íbúum Vestfjarða um 32 en á Norðurlandi vestra fækkaði íbúum um 13. Vestfirðingar eru nú 7.509 talsins en íbúar á Norðurlandi vestra 7.488 talsins, munurinn er 21 íbúi. Íbúum fækkar í öllum sveitarfélögum Húnavatnssýslna en fjölgar í Skagafirði.
Á tímabilinu fækkaði íbúum Húnaþings vestra um níu íbúa og eru þeir nú 1.251 talsins. Á Skagaströnd fækkaði um fimm íbúa og eru þeir nú 463 talsins. Sömu sögu er að segja um Húnabyggð, þar fækkaði um fimm íbúa og eru þeir nú 1.295 talsins. Í Skagabyggð fækkaði um einn íbúa og eru þeir nú 85 talsins. Í Skagafirði varð aftur á móti fjölgun um sjö íbúa á tímabilinu.
Íbúafjöldi á landinu nálgast nú að verða 400 þúsund en í dag eru íbúar landsins 399.860, íslenskir 324.417 og erlendir 75.443. Karlar eru 207.026, konur 192.666 og kynsegin/annað 168. Meðalaldur íbúa er 38,2 ár og elsti íbúinn er 106 ára.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.