Í vinnumennsku á Sjávarborg :: Kristrún Örnólfsdóttir minnist Skagafjarðar – 1. hluti
Höfundur minningabrotanna frá Sjávarborg, Kristrún Örnólfsdóttir fædd á Suðureyri við Súgandafjörð 1902 dáin 1978. Kristrún var elst 13 barna foreldra sinna. Nám aðeins í barnaskóla. Fór 16 ára að heiman sem vinnukona í sveit og bæ næstu 7 árin, m.a. vinnukona í Reykjavík frostaveturinn, spænskuveikina og fullveldisárið 1918, sem hún skrifaði minningar um.
Eftir dvölina á Sjávarborg réði hún sig sem fanggæslu hjá útgerð á Suðureyri en á þeim báti var formaður Björn Guðbjörnsson sem árið 1926 varð eiginmaður hennar. Þau eignuðust fjóra syni (undirritaður yngstur) og bjuggu alla tíð á Suðureyri. Kristrún var mestan part heimavinnandi húsmóðir. Hún var félagslynd, söng í kirkjukór og starfaði í Kvenfélaginu Ársól og skrifaði minningabrot í Sóley handskrifað félagsblað félagsins. Af komendur hennar eru rúmlega 60.
Kristján Helgi Björnsson Hvammstanga
Gamlar minningar
Á Sjávarborg í Skagafirði var ég vinnukona samfleytt í tvö og hálft ár, 3 sumur og tvo vetur, árin 1923, 1924 og 1925. Þar bjuggu 2 bræður Jón og Eiríkur. Þeir voru giftir systrum sem ættaðar voru fá Látrum í Aðalvík. Var sú eldri Margrét fædd á Flateyri gift Eiríki, hin hét Finney kona Jóns. Jón hafði 3/4 hluta jarðarinnar en Eirlkur ¼.
Fyrsta sumarið var ég hjá Eiríki og Margréti en síðan 2 ár hjá Jóni og Finney. Var allt fólkið í sama bænum. Var samvinna á túninu og heyinu skift þurru, vorum við oftast 11 manns við vinnu á túninu, en þegar farið var á engjar var 3 við vinnu hjá Eiríki og 8 á hinu búinu. Annað sumarið sem ég var á Borg vorum við 3 Súgfirðskar stúlkur þar, Kristín Einarsdóttir var hjá Eiríki en við María Friðriksdóttir hjá Jóni.
Engjarnar voru hólmar í Héraðsvötnunum, en farið á milli hólmanna á pramma en stundum ríðandi. Lágum við 6 við í tjaldi, en húsbóndinn fór heim á kvöldin og 1 stúlka til að hjálpa til við að mjólka. Var okkur færður maturinn á hestum en við fórum heim um helgar, oftast ríðandi. Vorum við María óvanar hestum og þess vegna engar hetjur á hestbaki, en piltarnir voru oft hrekkjóttir við okkur og slógu í hestana hjá okkur.
Engjarnar voru svo blautar að við urðum að vera í stígvélum en stundum dugði það ekki og fórum við uppfyrir þau. Við ljáinn var bundin grind úr vír og sópaði hún heyinu saman í múga, var það kallað rakstrarkona, þurfti ekki annað en ýta múgunum saman í föng eða sátur sem látið var á sleða sem hestur dró. Var venjulega flutt á 2 hestum, vorum við Sigurlaug með sinn hestinn hvor, þetta var kallað að „vaga“. Víða voru smápyttir, óx ekkert gras á þeim, en stundum slógu piltarnir múginn ofan yfir pyttinn og ætluðust til að við dyttum þar ofaní. Var ég einu sinni nærri komin ofaní en þá aðvaraði María mig, hún hafði eitthvað séð til þeirra.
Aldrei var bundið hey fyrr en svo mikið var orðið þurrt, að nóg var til að binda allan daginn, eða hátt í annaðhundrað hesta yfir daginn og reitt heim á 16 hestum. Vorum við Valdimar í bandinu allt sumarið.
Ein kaupakonan hét Stefanía, var hún trúlofuð pilti úti á Höfðaströnd. María var líka trúlofuð Ásgrími. Sigurlaug var vel hagmælt. Báðu þær hana að láta sig hafa vísur í bréf til kærastans. Stebbu vísa var svona:
Þetta sumar þreytir mig
það samt mýkir trega
að síðar fæ ég faðmað þig
fast og innilega.
Maríu vísan var svona:
Þín fjarvera það tilbjó
þrátt eru fölar kinnar
finn ég aðeins frið og ró
í faðmi veru þinnar.
Kaupahjúin á hinu búinu voru bara 2 í tjaldi, um þau gerði Lauga vísu:
Þegar nóttin nálgast fer
næði meður sínu
hyggur Rafn að halla sér
hljótt í rúm hjá Stínu.
Þegar leið að göngum fór kaupafólkið, þá gerði Lauga þessa vísu:
Ekki fellur allt í vil
ögn er hugur sleginn
því er rétt að tína til
táraklúta greyin.
Kristrún 20 ára.
Á Reykjum á Reykjaströnd var Kristín Einarsdóttir, kom hún í heimsókn til okkar laugardagskvöld og gisti um nóttina. Á sunnudeginum fengum við Stína Eiríks, María og ég, hesta til að fylgja Stínu á leið, og fórum við 2 bæjarleiðir útfyrir Sauðárkók. Ég man ekki hvort bærinn heitir Meyjarland eða Sævarland, en þar snerum við á heimleið.
Réttardaginn fengum við allar hesta til að fara í Reynistaðarrétt. Veður var sæmilegt þegar við lögðum af stað, en þegar við komum fram að Kimbastöðum, var komið svo mikið rok og rigning, að við gátum varla setið á hestunum. Vorum helst að hugsa um að snúa við, en þá datt okkur í hug að fara heim að Gili, en þar bjuggu foreldrar húsbændanna, ég hafði oft komið þangað áður. Fengum við þar ágætar móttökur og vorum þar góða stund og á meðan batnaði veðrið svo við héldum áfram að áfangastað. Þar voru kaffiveitingar í tjöldum og bauð Jón húsbóndi minn okkur kaffi. Síðan gengum við að réttinni og er það stærsti fjárhópur sem ég hefi séð.
Sumarið áður, þegar ég var hjá Eiríki, vorum við fram á engjum sem oftar. Kom hann til mín seinnipartinn og segir mér að á eyrunum í kringum bæinn séu geymd 800 hross, sem áttu að flytjast til útlanda. e/s „Goðafoss“ var væntanlegur til Sauðárkróks til að taka þau. Segir hann að sig langi til að sjá hópinn áður en tekið sé af honum, en þeir voru reknir í hópum úteftir. Spyr hann mig hvort ég vilji ekki koma líka, og þáði ég það. Það var hrífandi fögur sjón að sjá þennan marglita og fjöruga hóp, þeir glettust hver við annan og brugðu á leik. Sennilega hafa það verið seinustu frjálsu stundirnar hjá þeim.
Frá Sjávarborg á ég margar ánægjulegar endurminningar, og get ég ekki stillt mig um að láta hér með 3 vísur um bæinn:
Borg er mesta merkisjörð
menn það allir sjái
hamingjan þar heldur vörð
og hlynnir að hverju strái.
(höf.ókunnur)
Vel ert þú af guði gjörð
gjarnan menn þig virði
Borg sem er hin besta jörð
í breiðum Skagafirði.
(K.G.)
Hún mun engum inna tjón
eða þyngja sporin
hvergi fegri sé ég sjón
en Sjávarborg á vorin.
(E.B.)
Og að síðustu vil ég taka undir með skáldinu sem kvað:
Þar sem haga blómgan ber
býsna fagur gjörður
ævi langa ann ég þér
indæll Skagafjörður.
/Kristrún Þ. Örnólfsdóttir
ES: Prentað upp úr handriti höfundar með hennar stafsetningu og stíl. KHB.
---
Tvær aðrar sögur hefur Feykir fengið sendar frá Kristjáni sem móðir hans ritaði niður frá veru sinni á Sjávarborg og bíða birtingar við tækifæri. Feykir þakkar sendinguna og hvetur aðra til að senda blaðinu efni.
Áður birst í 9. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.