Hyggjast endurbyggja Málmeyjarhúsið í nýja miðbænum á Selfossi

„Málmeyjarhúsið 25. júní 1931. Hér er húsið 6 ára gamalt og í sínu besta standi. Hluti gamla bæjarins stendur enn ofan við og fjósbyggingin komin norðan undir. Búið er að draga fána að húni, líklega í tilefni myndatökunnar eða komu Arthurs Gook sem hefur gætt þess að útvarpsstöngin nyti sín á myndinni, enda upphaflega reist 1928 vegna útvarpsstöðvar hans. Þessi stöng virðist ætla að standa í heila öld og er enn árið 2020, það eina sem upp úr gnæfir á bæjarstæðinu. Einn fóstursonurinn er við stöngina en annar við húsgaflinn og líklega er það Gísli Konráðsson meðeigandi í Málmey sem ber við loft á myndinni. Hrúgaldið sunnan við húsið og grindverkið mun vera bænhústóftin og mótar vel fyrir bænhúsgarðinum í hálfhring utan um hana,“ segir Hjalti Pálsson, Byggðasöguritari, í myndatexta.  MYND ÚR X. BINDI BYGGÐASGÖU SKAGFIRÐINGA
„Málmeyjarhúsið 25. júní 1931. Hér er húsið 6 ára gamalt og í sínu besta standi. Hluti gamla bæjarins stendur enn ofan við og fjósbyggingin komin norðan undir. Búið er að draga fána að húni, líklega í tilefni myndatökunnar eða komu Arthurs Gook sem hefur gætt þess að útvarpsstöngin nyti sín á myndinni, enda upphaflega reist 1928 vegna útvarpsstöðvar hans. Þessi stöng virðist ætla að standa í heila öld og er enn árið 2020, það eina sem upp úr gnæfir á bæjarstæðinu. Einn fóstursonurinn er við stöngina en annar við húsgaflinn og líklega er það Gísli Konráðsson meðeigandi í Málmey sem ber við loft á myndinni. Hrúgaldið sunnan við húsið og grindverkið mun vera bænhústóftin og mótar vel fyrir bænhúsgarðinum í hálfhring utan um hana,“ segir Hjalti Pálsson, Byggðasöguritari, í myndatexta. MYND ÚR X. BINDI BYGGÐASGÖU SKAGFIRÐINGA

Nýr miðbæjarkjarni á Selfossi var opnaður á síðasta ári og hefur vakið mikla athygli og gleður augað þó ekki hafi kannski allir verið á eitt sáttir um framkvæmdina. Nú á dögunum var boðað til íbúafundar sunnan heiða þar sem nýr áfangi í byggingu miðbæjar Selfoss var kynntur. Áætlað er að 40 ný hús muni fylla annan áfanga verkefnisins og er hugmyndin að um endurbyggingar af sögulegum húsum verði að ræða, víðsvegar að af landinu. Þar með talið Málmeyjarhúsið, gullfallegt hús sem stóð í Málmey á Skagafirði en brann um miðja síðustu öld.

Meðal annarra þekktra húsa sem Selfyssingar hyggjast endurbyggja eru Sýslumannshúsið í Stykkishólmi, Fell á Ísafirði, gamla Selfossbíó, Evangerverksmiðjan á Siglufirði, Konsúlanthúsið í Vestmannaeyjum, Syndikatið í Reykjavík, hinn upprunalegi Tryggvaskáli og Addabúð á Selfossi. Áætlaður kostnaður við uppbygginguna er á bilinu 13-14 milljarðar en stefnt er á að hefja framkvæmdir á vordögum, reiknað er með að framkvæmdir taki þrjú ár. Mögulega gæti komið til íbúakosningar um þessi áform.

Málmeyjarhúsið

Fjallað var um byggð í Málmey á Skagafirði í síðasta bindi Byggðasögu Skagfirðinga og þar er sagt frá timburhúsinu veglega sem byggt var 1925, tveggja hæða með steinsteyptum kjallara. „Það var eitthvert íburðarmesta íbúðarhús í sveitum Skagafjarðar þegar það var reist. Allstór verönd var aðútidyrum hússins og svalir yfir á efri hæð, skreyttar pílárum og renndum súlum en ljónamyndir ofan á vindskeiðum. Frans Jónatansson og Jóhanna Gunnarsdóttir létu byggja húsið og fluttu inn í það sama ár en Jón H. Árnason frá Kambi var yfirsmiður. Húsið eyðilagðist í eldsvoða daginn fyrir Þorláksmessu árið 1951...“ segir í Byggðasögunni.

Bráðsnjallt hjá þeim Sunnlendingum því margur verður eflaust forvitinn að sjá hvernig til tekst með endurbyggingar á forvitnlegum og sögufrægum húsum úr sinni heimabyggð.

- - - - - 
Heimildir: Dagskráin Selfossi, Byggðasaga Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir