Hvetur alla til að flykkjast á kjörstað - Feykir spyr
Klara Helgadóttir er fædd og uppalin á Úlfsstöðum í Blönduhlíð en flutti 19 ára gömul út í Viðvíkursveit þar sem hún hefur búið síðan á Syðri-Hofdölum. Þar býr hún blönduðu búi ásamt manni sínum Atla Má Traustasyni en saman eiga þau þrjú börn, tengdadóttur og eitt barnabarn.
Í tilefni sameiningarkosninga sem fram fara þann 19. febrúar nk. var nokkur kosningabragur á Feyki þessa vikuna líkt og í þeirri síðustu enda ærin ástæða til. Rétt til að heyra í hinum almenna borgara sendi Feykir, af handahófi, nokkrum einstaklingum úr sitthvoru sveitarfélaginu í Skagafirði spurningar til að kanna hug þeirra til verkefnisins.
Hvernig líst þér á að sveitarfélögin í Skagafirði verði sameinuð? -Í mínum huga er engin spurning að sameina sveitarfélögin tvö í Skagafirði: Nú þegar er mikil samvinna sveitarfélagana varðandi grunn- og leikskóla og síðan sér Sveitarfélagið Skagafjörður um mestalla þjónustu fyrir Akrahrepp. Talsverður hluti tekna Akrahrepps rennur nú þegar til Sveitarfélagsins Skagafjarðar, því ekki að taka skrefið alla leið og vinna þetta saman sem ein öflug heild?
Hvað telur þú jákvætt? -Jákvætt að öllu leiti, eflir samfélagið í Skagafirði sem öfluga heild til framtíðar.
Hvað neikvætt? -Ekkert neikvætt kemur upp í hugann.
Hvernig telur þú að sameining eigi eftir að breyta þinni afkomu ef nokkuð? -Sameining á ekki eftir að breyta minni afkomu neitt bara auðvelda alla vinnu sem fer fram á félagslegum grunni í firðinum okkar fagra.
Hefur þú fylgst með umræðum og skrifum á heimasíðu sameiningarnefndar Skagfirðingar.is? -Nei, mér finnst þetta svo sjálfsagt mál að það þarf ekkert að ræða það neitt frekar. Fylgdist reyndar með kynningarfundunum rafrænt.
Er eitthvað sem þér finnst tortryggilegt sem sett er fram um hugsanlega sameiningu? -Engin tortryggni bara eðlileg framvinda að sameinast og styrkja samfélagið okkar með þeim mannauði sem bæði sveitarfélögin bjóða upp á.
Hvað gætir þú hugsað þér að sameinað sveitarfélag myndi heita? -Er ekki eðlilegt að öflugt sameinað sveitarfélag heiti eftir firðinum okkar fagra.
Að lokum hvet ég alla til að flykkjast á kjörstað, horfa með opnum huga til framtíðar og samþykkja sameininguna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.