Hugleiðing inn í daginn varðandi kosningarnar næsta laugardag
Fólk á að hugleiða alla möguleika og kjósa það sem þeim finnst réttast. Okkar álit er það að þessi tvö sveitarfélög standa örugglega betur sameinuð við það að þjónusta börn og fjölskyldur þeirra, sem eru langveik og þurfa öðruvísi og meiri þjónustu en aðrir.
Við, í sveitarfélaginu Akrahreppi, þurfum að sækja alla þá þjónustu fyrir börnin okkar í Sveitarfélagið Skagafjörð, samkvæmt samningi sem Akrahreppur er með þar um. Foreldrar langveikra og einstaklinga með sérþarfir þurfa alltaf að sækja sinn rétt og vera dugleg við það. Það eitt tekur ágætlega á mann. En það að þurfa að berjast fyrir þeim rétti sem barnið þitt á, þar sem þú ert búsett í öðru sveitarfélagi heldur en barnið þitt sækir, t.d. leiksskóla, tekur enn þá meiri toll, það að þurfa að berjast fyrir því að einstaklingurinn sem fær ekki þá þjónustu sem hann á rétt á þar sem samningar við annað sveitarfélag uppfylla ekki, er algjörlega glórulaust. Samningur milli sveitarfélaganna um þjónustu langveikrar og fatlaðra rennur bráðum út, hvað verður gert þá ef ekki nást aftur samningar?
Þegar Jökull Máni fæðist 2017 og ég fer að leita míns og hans réttar 2017/2018 var eins og aldrei hefði verið fatlað barn í Akrahreppi, sem var þó ekki raunin en því miður engar skrifaðar reglur til staðar, svo ég gat ekki vitað hver réttur okkar væri eða hvað við værum að sækja um nema afla mér upplýsinga frá öðrum sveitarfélögum. Hrefna, oddviti Akrahrepps, stóð þó þétt við bakið á okkur í þessum málum og hjálpaði okkur eins og hún gat, gerði samninga og hjólin fóru að snúast, en það tók samt sinn tíma, eins og t.d samningur með stuðningsfjölskyldu og foreldragreiðslur. Svo tók við að finna leikskóla sem myndi henta hans þörfum best og kom leikskólinn Ársalir best út að okkar mati en þar er talmeinafræðingur og þroskaþjálfi á staðnum og einnig í boði að barnið fari í sjúkraþjálfun á vistunartíma. En samningur við leikskólann Ársali var ekki heldur til staðar, það tók líka sinn tíma að uppfylla hann og gera virkan. En í Covid 2020, þegar ég var búin að vera heima með krakkana mína í næstum tvo mánuði vegna smita í samfélaginu, fékk ég afar leiðinlegt símtal um að barnið mitt myndi missa leikskólaplássið sitt ef samningur frá sveitarfélaginu Akrahreppi myndi ekki skila sér fyrir mánaðamót og þetta var í kringum 20. þess mánaðar. Að sjálfsögðu var stokkið til og því reddað og hann fékk að halda áfram en leiðinlegt fyrir foreldra að þurfa að fá þessi skilaboð og bæta því ofan á allt annað sem var til staðar.
Vöntun er á félagsþjónustu eða fjölskylduráðgjöf því jú, auðvitað er það krefjandi og tekur á og gott að fá álit annarra á öllum málum þegar maður á fatlað eða mikið veikt barn. Það hefur ekki bara áhrif á barnið og foreldra heldur systkini og nánustu ættingja en það er því miður ekki í boði í Akrahreppi, sú þjónusta er öll sótt í Sveitarfélagið Skagafjörð eða önnur í kring. En svo þegar kemur að þjónustu fatlaðra í Akrahreppi með þjónustubílinn á Sauðárkróki þá er hann ekki í boði fyrir barn sem er með lögheimili i Akrahreppi því sveitarfélagið er ekki með samning um að nýta þá þjónustu svo eini möguleikinn sem var í stöðunni þegar ekki var hægt að labba með barnið í sjúkraþjálfun frá leikskóla var að foreldrar myndu borga leigubíl í og úr þjálfun. Í sameinuðu sveitarfélagi þyrftu foreldrar fatlaðra eða langveikra barna ekki að grafa eftir öllu og berjast fyrir sínum rétti eða koma að lokuðum dyrum.
Stöndum saman og gerum þetta saman!
Anna Baldvina og Jóna Kristín
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.