Hrekkjavakan í Byggðasafninu í Glaumbæ

Frá hrekkjavöku í Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. MYNDIR AF FACEBOOK-SÍÐU SAFNSINS
Frá hrekkjavöku í Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. MYNDIR AF FACEBOOK-SÍÐU SAFNSINS

Sennilega eru einhverjir orðnir ringlaðir með dagsetninguna á hrekkjavökunni en hún mun víst eiga daginn 31. október – sem var í gær. Í Árskóla á Sauðárkróki mæta nemendur og kennarar í búningum í dag en gengið var í hús á Króknum síðastliðinn laugardag og ýmist boðið upp á grikk eða gott. Í Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ var haldið upp á hrekkjavökuna nú um helgina.

„Við héldum fyrst upp á hrekkjavöku í fyrra með viðburði í Glaumbæ sem gekk ótrúlega vel og viðtökurnar fóru fram úr okkar björtustu vonum en við fengum þá um 150 gesti og mikið fjör. Það var engu síðra núna, við fengum svipaðan fjölda, ef ekki fleiri,“ segir Berglind Þorsteinsdóttir, safnstjóri í spjalli við Feyki. „Gamli bærinn tók á sig mjög skuggalegan blæ og á göngum hans mátti heyra öskur og hlátrasköll á víxl, bæði frá börnum og fullorðnum.“

Sjö sögustundir fóru fram í baðstofunni þar sem sögurnar „Meiri mold, meiri mold“ og frásagnir um Ábæjar-Skottu voru túlkaðar og leiknar með skuggalísum og vöktu þær mikla lukku. Mikið fjör var líka í Áshúsi. „Krakkarnir skáru út grasker og rófur og föndruðu ýmislegt. Þar voru líka hryllilegar veitingar á boðstólnum, s.s. marens draugar og grænar pönnukökur. Við hlökkum því mikið að endurtaka leikinn að ári og vonum að sama góða stemningin verði fyrir honum þá og sl. tvö ár,“ segir Berglind að lokum.

Feykir fékk leyfi til að birta nokkrar myndir frá hrekkjavöku í Glaumbæ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir