Horft til framtíðar

Rísandi sól í Skagafirði 22. desember 2021. Mynd: PF.
Rísandi sól í Skagafirði 22. desember 2021. Mynd: PF.

Á laugardaginn kemur, 19. febrúar, verður kosið um sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar ásamt sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar. Hinn 26. mars kjósa svo íbúar Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps um sameiningu sem og íbúar í Helgafellssveit og Stykkishólmsbæ.

Aðdragandi þessara kosninga er allnokkur. Framþróun íslensks samfélags, breyttar þjóðfélagsaðstæður og ákall um aukna valddreifingu hefur orðið til þess að stórir og mikilvægir málaflokkar hafa á undanförnum árum færst úr umsjón ríkisins yfir til sveitarfélaganna og má þar nefna rekstur grunnskólanna og málefni fatlaðs fólks. Með breytingum á lögum og reglugerðum hafa kröfur um það hvernig sveitarfélögin inna af hendi þjónustu sína jafnframt aukist stórlega. Einnig hefur áhrif að samkvæmt lögum þurfa sveitarfélög sem eru undir 250 manna íbúamörkum við sveitarstjórnarkosningar í vor, annað hvort að sameinast öðru eða skila áliti þar sem rökstutt er hvernig það getur staðið undir lögmæltum verkefnum.

Lögmælt verkefni skiptast í annars vegar lögskyld verkefni og hins vegar lögheimil verkefni. Lögskyld verkefni sveitarfélaga, þ.e. verkefni sem sveitarfélögum er skylt að sinna lögum samkvæmt eru í dag 76 talsins en til viðbótar eru 18 verkefni það sem kallað er lögheimil. Með lögheimilum verkefnum er átt við að sveitarfélög hafi svigrúm til þess að ákveða hvort verkefninu sé sinnt, en ef sú ákvörðun er tekin gildir um verkefnið tiltekinn lagarammi. Flestir geta verið sammála um að við flutning verkefna frá ríki heim í hérað hefur þjónustan í kringum þau aukist og batnað.

Sameining hefur fleiri kosti en galla

Samstarfsnefnd, sem sveitarstjórnir Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar skipuðu í þau sem hér rita undir til að kanna kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna, hefur skilað áliti sínu. Álit okkar er að sameining Skagfirðinga í eitt sveitarfélag hafi fleiri kosti en galla og hvetjum við íbúa til að veita henni brautargengi. Sameiningunni fylgja þó vissulega einnig áskoranir sem við teljum að hægt sé að mæta með útfærslu stjórnskipulags þar sem íbúar fái meiri tækifæri til beinnar þátttöku í ákvarðanatöku.

Sameining einfaldar stjórnsýsluna í Skagafirði og jafnar þjónustu til íbúanna af hálfu sveitarfélagsins. Félagasamtök eins og kórar, kvenfélög, búnaðarfélög o.fl. munu starfa eftir sem áður og íbúar munu vafalítið oft kenna sig áfram við sínar heimabyggðir, eins og Fljótin, Blönduhlíðina, Hegranesið, Skagann, Langholtið, Krókinn, Hofsós o.s.frv.

Við teljum að með sameinuðu sveitarfélagi allra Skagfirðinga séum við sem samfélag öflugri og betur í stakk búin til að takast á við framtíðaráskoranir í stjórnsýslu, þróun byggðar, eflingu þjónustu og til að veita komandi kynslóðum tækifæri til að vaxa og dafna í dreifbýli sem og þéttbýli.

Nýtum atkvæðisréttinn og kjósum

Á laugardaginn geta Skagfirðingar kosið um það hvort þeir vilji sameinast í einu sveitarfélagi. Hvaða skoðun sem við höfum hins vegar á sameiningu eða ekki sameiningu, þróun sveitarstjórnarstigsins og stjórnsýslunni yfir höfuð þá hvetjum við íbúana til að sameinast um að ganga til kosninga og greiða atkvæði um tillöguna. Það er mikilvægt að nota þann lýðræðislega rétt að láta skoðun sína í ljós. Þann rétt skulum við ekki láta fram hjá okkur fara.

Álfhildur Leifsdóttir
Drífa Árnadóttir
Eyþór Einarsson
Gísli Sigurðsson
Hrefna Jóhannesdóttir
Ingibjörg Huld Þórðardóttir
Jóhanna Ey Harðardóttir
Ragnhildur Jónsdóttir
Sigfús Ingi Sigfússon
Sigríður Sigurðardóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir