Hólahátíð og biskupsvígsla um helgina

Frá Hólum í Hjaltadal.
Frá Hólum í Hjaltadal.

Hólahátíð verður haldin hátíðleg nú dagana 13.-14. ágúst en venju samkvæmt er hátíðin haldin sunnudaginn í 17. viku sumars. Dagskráin verður örlítið óvenjuleg þar sem sr. Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæjarprestakalli, verður vígður biskup en það er Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sem vígir sr. Gísla við hátíðlega athöfn á sunnudag í Hóladómkirkju.

Á vef Kirkjunnar segir að dagskrá Hólahátíðar byrji með hefðbundnum hætti á laugardeginum með pílagrímagöngu eftir Hallgrímsveginum frá Gröf á Höfðaströnd heim að Hólum. Gangan hefst níu að morgni og þegar komið er heim að Hólum um fjögurleytið geta þau sem vilja endurnýjað skírnina og gengið til altaris í kirkjunni.

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, flytur hátíðarræðu kl. 18.00 og sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, flytur ávarp. Þá verður tónlist flutt af þeim Brjáni Ingasyni og Bryndísi Björgvinsdóttur sem leika á fagott og selló.

Nýr vígslubiskup í Hólaumdæmi

Á sunnudegi hefst dagskráin með tónleikum í Hóladómkirkju kl. 11 og kl. 14 hefst Biskupsvígsla á sama stað. Þá mun, sem fyrr segir, Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, vígja sr. Gísla Gunnarsson til embættist vígslubiskups í Hólaumdæmi. Kirkjukórar Glaumbæjarprestakalls og Hóladómkirkju syngja, Bryndís og Brjánn leika á fagott og selló en organistar eru Jóhann Bjarnason og Stefán Gíslason. Dagskrá Hólahátíðar lýkur með veislukaffi á Kaffi Hólar.

Núverandi vígslubiskup í Hólaumdæmi, sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, lætur formlega af störfum 1. september eftir tíu ára vígslubiskupsþjónustu.

„Hólahátíð er kirkju- og menningarhátíð á síðsumri sem hefur mikið aðdráttarafl. Enginn sem er staddur í héraðinu þessa helgina ætti að láta hátíðina fram hjá sér fara. Svo er fullt tilefni fyrir áhugasamt fólk að renna heim að Hólum úr öllum landshornum! Hólahátíðin er nefnilega óvenju viðburðarík þetta árið.“ – segir á vef Kirkjunnar.

Heimild: Kirkjan.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir