Hjalti Pálsson hlaut viðurkenningu Hagþenkis fyrir Byggðasögu Skagafjarðar
Hjalti Pálsson, ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar, hlaut í gær viðurkenningu Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir ritröðina sem telur alls tíu bindi. Útgefandi Byggðasögunnar er Sögufélag Skagfirðinga. Fram kemur í greinargerð Hagþenkis að þar væri á ferðinni mikilsumsvert framlag til lengri tíma en í ályktunarorðum viðurkenningarráðsins sagði um ritin: „Yfirgripsmikið fjölbindaverk, skrifað af þekkingu og stutt margvíslegum heimildum ásamt fjölda ljósmynda.“
Súsanna Margrét Gestsdóttir, sem sæti á í viðurkenningarráði Hagþenkis, sagði í ávarpi sínu að ekki væri einfalt mál að skrifa byggðasögu, eins og höfundar fjölmargra slíka sem komið hafa út síðustu ár vita mætavel. „Sitt af hverju þarf að hafa í huga: Handa hverjum er skrifað, gæta þarf þess að segja satt og rétt frá, halla ekki á nokkurn mann. Velja þarf efnisþætti því að ekki er hægt að skrifa um allt, eða hvað?
Formálinn að fyrsta bindi Byggðasögu Skagafjarðar hefst með tilvitnun í óð skáldsins Matthíasar um Skagafjörð: „Hver einn bær á sína sögu, sigurljóð og raunabögu“. Þar boðar höfundur, Hjalti Pálsson, útgáfu sjö binda verks. Það verði byggt á hinu gamla Jarða- og búendatali í Skagafjarðarsýslu sem náði aftur til ársins 1781, fjallað verði um hátt í 580 jarðir, skipt eftir hreppum að fornum hætti. Manna- og staðanafnaskrár skyldu bíða lokabindis.
Tuttugu og fimm árum síðar höfum við hér tíu binda verk, prýtt þúsundum ljósmynda. Jarðirnar urðu nær 700 þegar upp var staðið en Hjalti og aðstoðarfólk hans heimsótti hvern einasta bæ og ábúendur hans, flesta margsinnis. Umfang nafnaskrárinnar varð að lokum svo mikið að ákveðið var að birta hana á netinu, frekar en að prenta í bók.
Enda er hér fjallað um gósenland: Sjálfan Skagafjörð þar sem Sturla Sighvatsson þurrkaði framan úr sér svitann og muldraði „ekki er mark að draumum“ morguninn fyrir Örlygsstaðabardaga, þar sem Sólveig á Miklabæ kom í veg fyrir að séra Oddur fengi leg í vígðri mold og þar sem Sölvi Helgason hóf sitt flækingslíf og dró upp óviðjafnanlegar myndir af litlum efnum.“
Í þakkarræðu Hjalta sagði hann að það hafi fallið í hans hlut að ritstýra þessu verki og reyndar skrifa stærstan hluta þess en Byggðasaga Skagafjarðar hafi aðeins orðið til fyrir áhuga og samstarf fjölmargra aðila: „Bæði þeirra ótalmörgu sem lögðu lið með upplýsingagjöf og þeirra sem komu að skrifum og úrvinnslu en ekki síður heimaaðila sem héldu það út að fjármagna verkið í 26 ár. Áætla má að í ritun og útgáfu Byggðasögunnar hafi farið að minnsta kosti 50 starfsár.
Það væri ófært að nefna alla þá sem að gagni komu við tilbúnað Byggðasögunnar. Þeir skipta fjölmörgum hundruðum. Vil ég samt telja fjögur nöfn manna sem lengst og best unnu með mér. Egils Bjarnasonar ráðunauts á Sauðárkróki frá 1996-2007 og síðan Kára Gunnarssonar frá Flatatungu 2007-2019, Guðmundar Sigurðar Jóhannssonar ættfræðings sem yfirfór, bætti í og leiðrétti ábúendatalið á þann hátt sem enginn annar hefði betur getað og Þorgils Jónassonar sem bjó til nafnaskrána. Hún var ekki prentuð vegna stærðar en hefur birst á heimasíðu Sögufélags Skagfirðinga og er raunar ekki fullunnin ennþá. Fyrirgreiðsla og aðstaða á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga var lykillinn að því að hægt var að vinna þetta verkefni og samvinna við fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga skilaði mikilli vitneskju um fornbyggð í Skagafirði.
Fyrir hönd okkar allra sem höfum í aldarfjórðung staðið að útgáfu sögu byggðar í Skagafirði færi ég stjórn og viðurkenningarráði Hagþenkis hugheilar þakkir fyrir þann sóma sem mér hefur verið sýndur og verkinu Byggðasögu Skagafjarðar sem ég var svo lánsamur að fá tækifæri til að skapa og ritstýra.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.