Heiðmar sigraði í Söngkeppni NFNV
Söngkeppni FNV fór fram síðastliðið fimmtudagskvöld á sal bóknámshúss Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Sigurvegari keppninnar var Heiðmar Gunnarsson en hann söng lagið Another Love sem Tom Odell gerði vinsælt fyrir um tíu árum síðan og hefur fengið yfir 1.4 milljarð spilana á Spotify.
Í öðru sæti endaði Þórey Edda Marx með lag Siu, Elastic Heart, og í þriðja sæti voru þau Íris Helga Aradóttir og Óskar Aron Stefánsson með lagið Á tjá og tundri sem var fyrsta lagið sem Skagstrendingurinn Gummi Jóns gerði vinsælt með Sálinni hans Jóns míns. Alls voru sjö atiði í Söngkeppni NFNV en flytjendur voru alls tólf talsins.
Sigurvegarinn, Heiðmar Gunnarsson, sem er aðeins 16 ára gamall, er frá Búrfelli í Svarfaðardal en foreldrar hans eru Gunnar Þór Þórisson og Guðrún Marinósdóttir. Heiðmar verður því fulltrúi NFNV í úrslitum Söngkeppni framhaldsskólanna sem væntanlega fara fram á höfuðborgarsvæðinu, væntanlega í Kaplakrika í Hafnarfirði, þann 1. apríl nk.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.