Matthildur hefur alltaf verið spennt fyrir leikhúsinu :: Í fylgd með fullorðnum

Í fylgd með fullorðnum, Matthildur Ingimarsdóttir, á Flugumýri leikur 13 ára Birnu. 
Í fylgd með fullorðnum, Matthildur Ingimarsdóttir, á Flugumýri leikur 13 ára Birnu. 

Á Melum í Hörgárdal sýnir Leikfélag Hörgdæla frumsamið verk Péturs Guðjónssonar Í fylgd með fullorðnum sem jafnframt leikstýrir verkinu. Verkið byggir á lögum og textum Bjartmars Guðlaugssonar og fjallar um ævi Birnu sem er komin að ákveðnum kaflaskilum í lífi sínu og rifjar upp líf sitt allt frá bernsku til fullorðinsára. Leikkonurnar eru fjórar sem skipta hlutverki Birnu á milli sín og ein þeirra er Skagfirðingurinn Matthildur Ingimarsdóttir á Flugumýri. Feykir hafði samband við leikkonuna ungu og forvitnaðist um þátttöku hennar í þessu skemmtilega leikriti.

Frumsýning Í fylgd með fullorðnum fór fram sl. fimmtudag fyrir fullu húsi og stemningin var hreint út sagt mögnuð. Hver kjaftur þekkir lögin sem lifað hafa með þjóðinni í áratugi og ekki hafði undirritaður áttað sig á hve vel þau lýsa tíðarandanum á lífshlaupi Birnu og hennar samferðafólks. Sagan er súrsæt, oft skemmtilegt hjá Birnu en hver ákvörðun og gjörðir hennar og þeirra sem í kringum hana er hefur afleiðingar sem horfast verður í augu við. Ekki er það ætlunin að skrifa einhverja leikhúsgagnrýni hér en óhætt er að mæla með leikhúsferð í Hörgárdalinn og hverfa aftur til hinna dásamlegu daga þegar bjórinn var bannaður en vodki í kók og sígó var málið og vinnan hafði forgang á stúdentshúfuna.

Að aflokinni frumsýningu var öllum er stóðu að sýningunni
færð blóm en stærsta vöndinn fékk höfundur og leikstjóri
verksins, Pétur Guðjónsson. Mynd: PF.

Leikurinn var ansi skemmtilegur en alls stigu 17 leikarar á svið, sumir alvanir en aðrir að stíga sín fyrstu skref, eins og segir í kynningu. Einn þeirra er ung og efnileg leikkona, Matthildur Ingimarsdóttir, Jónssonar og Margrétar Óladóttur á Flugumýri í Blönduhlíð. Hún leikur 13 ára Birnu sem er að kynnast ástinni og fara í gegnum unglingaveikina í leikritinu. Matthildur segist alltaf hafa verið spennt fyrir leikhúsinu og að taka þátt í uppsetningu á söngleik eða leikriti.

„Svo ég fór bara í prufu og fékk hlutverk. Þó ég eigi heima á Flugumýri þá bý ég líka á Akureyri og er þar í skóla. Ég fæ alltaf far með einhverjum því við búum eiginlega öll á Akureyri sem erum í leikritinu,“ segir Matthildur aðspurð um aðkomu sína á leikritinu. „Við byrjuðum að æfa seinnipartinn í janúar og mér finnst gaman hvað hópurinn nær vel saman. Það eru búnar að vera mjög margar æfingar en það er alltaf jafn gaman hjá okkur. Á frumsýningunni var ég pínu stressuð en svo gekk þetta bara allt vel. Mér líður bara alltaf vel á sviði. Það var góð stemning og allir voru spenntir og glaðir,“ segir hún.

Brugðið á leik; Matthildur ásamt Særúnu Elmu
Jakobsdóttur, sem leikur Birnu 21 árs. Aðsend mynd.

Það er mikið um að vera hjá Matthildi því auk þess að leika æfir hún á píanó, söng og blak og þess á milli er hún mikið fyrir það að fara á snjóbretti. En hvað er framundan?

„Nú eru bara sýningar framundan á föstudögum og laugardögum og svo ætla ég að fermast 24. apríl. Svo er bara að reyna að komast á bretti upp í fjall inn á milli. Svo verðið þið bara öll að koma og horfa ef þið viljið vita eitthvað meira!“ segir hún í lokin.

Í fylgd með fullorðnum er sýnt á föstudags, og laugardagskvöldum og miða er hægt að nálgast á  Tix.is svo er hægt að fylgjast með framvindunni á Facebook-síðu Leikfélags Hörgdæla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir