Haustbragur á Tindastólsmönnum í tapi gegn Hetti
„Fyrst og fremst var gaman að koma aftur íþróttahúsið og hitta stuðningsmennina og allt fólkið sem hjálpar til við alla umgjörð heimaleikjanna,“ tjáði Helgi Margeirs, aðstoðarþjálfari Stólanna í körfunni, Feyki þegar forvitnast var um leik Tindastóls og Hattar sem spilaður var í Síkinu í gærkvöldi. Gestirnir höfðu betur í leiknum, 74-88, en Helgi segir að leikurinn hafi spilast að miklu leiti eins og við mátti búast hjá Stólunum. „Spilið var stirt og hægt á löngum köflum en inn á milli birti til og við sáum glitta i það sem við viljum gera þegar líður á og liðið slípast saman.“
Helgi segir að það sé auðvitað aldrei gaman að tapa en það skipti samt ekki öllu í svona leikjum þar sem þjálfarar eru að prófa sig áfram með alls konar útfærslur, bæði varnarlega og sóknarlega, og leikmenn enn að finna sig i nýjum hlutverkum eða áherslum.
„Varnarleikurinn var í heild alls ekki nógu góður og mikil vinna eftir þar en Hattarmenn voru líka góðir og spiluðu sig oft í opin skot og spiluðu heilt yfir góðan leik.
Við spiluðum á öllum leikmönnum í fyrri hálfleik, skipt var nokkrum sinnum heilu liði inn á í heild sinni. Þannig skiptingar gera það erfitt að halda takti en a móti kemur eru þjálfarar að skoða ákveðna svörun frá leikmönnum. Það var einnig sérstaklega gaman að fylgjast með fjórum ungum en mjög efnilegum drengjum fá traustið og standa sig vel á parketinu, sem gefur góð fyrirheit fyrir framtíðina,“ sagði Helgi að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.