Hafa áhyggjur af lélegu fjarskiptasambandi víða um Skagafjörð

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því í gegnum verkefnið Ísland ljóstengt að koma á ljósleiðaratengingu í dreifbýli utan markaðssvæða í Skagafirði en því verkefni er nú lokið. Gsm og tetra-samband í Skagafirði er hins vegar víða stopult eða ekki til staðar, segir í fundargerð byggðarráðs Skagafjarðar. Jafnframt kemur fram að þetta eigi við nokkuð víða, t.a.m. í inndölum þar sem m.a. er stundaður landbúnaður og ferðaþjónusta, auk þess sem þau svæði laði að sér marga gesti til útivistar. Því sé enn óleyst það mikilvæga verkefni að tryggja fjarskiptasamband fyrir almenning til neyðar- og viðbragðsaðila gegnum 112.

Á fundi byggðarráðs fyrir helgi lýsti það yfir áhyggjum af lélegu fjarskiptasambandi víða um Skagafjörð sem dregur úr öryggi þeirra sem búa á svæðinu eða eiga leið um það.

„Í óveðri sem gekk yfir landið fyrir skemmstu kom sú staða upp að rafmagn fór af hluta Skagafjarðar og í kjölfarið datt farsímasamband einnig út þannig að íbúar á svæðinu voru með öllu sambandslausir við umheiminn. Áður höfðu íbúar símasamband í sambærilegum aðstæðum í gegnum gamla koparvírinn sem ekki þurfti sértengingu við rafmagn til að virka,“ segir í fundagerðinni og hvetur byggðarráð Neyðarlínuna og ríkisvaldið til að tryggja fullnægjandi fjarskiptasamband með uppsetningu fleiri senda og tryggara varaafls, auk þess sem Tetra-sambandið verði stórlega bætt til að auka öryggi íbúa og ferðamanna í landshlutanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir