Gul veðurviðvörun í kortunum
Gul veðurviðvörun er í gildi fyrir Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra en þar ríkir allhvöss norðanátt samfara mikilli rigningu á láglendi en slyddu eða snjókomu á fjallvegum þar sem búast má við erfiðum akstursskilyrðum og á það t.d. við um Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði. Þá má búast við vexti í ám og lækjum og auknum líkum á skriðuföllum og grjóthruni þar sem það á við. Á vef Vegagerðarinnar segir að krapi sé á Holtavörðuheiði, snjóþekja á Þverárfjalli og hálkublettir á Öxnadalsheiði og Vatnsskarði.
Á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra er gert ráð fyrir norðvestan 10-18 m/s með rigningu nærri sjávarmáli í dag en gula viðvörunin gildir fram á kvöld. Eins og áður segir verður slydda eða snjókoma á fjallvegum þar sem búast má við erfiðum akstursskilyrðum og á það t.d. við um Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði.
Ekki fást frekari upplýsingar á vef Veðurstofunnar þar sem veðurspársíðan liggur niðri. Á norsku veðurstöðinni Yr.no má hins vegar sjá að vænta megi þess að kólni á Norðurlandi vestra næstu daga með næturfrosti og úrkomu í formi snjós.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.