Gildi hversdagsleikans :: Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

Víðimýrarkirkja. Í upphafi 20. aldar stóð til að rífa hana, en Þjóðminjasafnið skarst í leikinn. Mynd fengin frá Skógasafni. Aðrar myndir eru teknar á Byggðasafni Skagfirðinga.
Víðimýrarkirkja. Í upphafi 20. aldar stóð til að rífa hana, en Þjóðminjasafnið skarst í leikinn. Mynd fengin frá Skógasafni. Aðrar myndir eru teknar á Byggðasafni Skagfirðinga.

Þegar plága geisaði sem mest um heiminn fyrir ekki svo löngu mátti gjarnan heyra sagt að nú væru runnir upp sögulegir tímar; þessir sem lesið er um í sögubókum; sem einkennast af stríðum og hörmungum; sem Íslendingar höfðu ekki fengið að reyna um allnokkurt skeið. Þar kom að við höfum nú mörg fengið nægju okkar af sögulegum tímum.

Þessar athugasemdir komu ekki á óvart, því það er gjarnan tilhneiging okkar að upphefja þá hluta sögunnar sem eru frávik frá öðrum, algengari atburðum, og svo þá gripi og muni sem þóttu öðrum merkilegri á sinni tíð. Þetta er augljóst á flestum söfnum, þar sem einkanlega eru hafðir til sýnis fágætir og merkilegir gripir, helst ef þeir hafa verið í eigu frægra manna. Með þessum hugsunarhætti er hins vegar skautað fram hjá nokkru mjög mikilsverðu, sem oft gleymist í amstri dagsins. Dýrmætustu gripir safna, til sýningar, eru einmitt þeir sem venjulega teljast nauðaómerkilegir og engar frásagnir fara af. Þeir verða trúlega ekki metnir til mikils fjár, en gamall og snjáður askur, sem aldrei hefur þótt prýði af, segir ævinlega margfalt meiri sögu um líf þjóðar en skartgripur eða fatnaður úr eigu stórmennis.

Víðimýrarkirkja veldur engri bólu á fasteignamarkaði, og hefur aldrei gert, en hún er þó einhver stórkostlegasti vottur um íslenskt þjóðfélag, atorku og metnað alþýðunnar fyrir híbýlaprýði á 19. öld sem fyrir finnst. „Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja“, sagði HKL.1 Munirnir hjálpa okkur að skilja fortíðina eins og forfeður okkar upplifðu hana. Eftir því sem tíminn líður breytist þannig upplifun okkar af heiminum og jafnframt gildismat samfélagsins, sem hefur loks áhrif á það hvaða munir eru varðveittir til framtíðar og hverjir ekki. Ekki má gleymast hversu merkilegir venjulegir hlutir geta orðið, ef þeir bara standast tímans tönn.

Koppurinn góði, BSk-503.
Hann lætur ekki frægðina stíga sér til höfuðs.

Gott dæmi um þetta er koppur einn með skráningarnúmerið BSk-503. Í hann gerði þarfir sínar Jón Björnsson2, sem bjó á Bakka í Viðvíkursveit 1906-19573. Þótti koppurinn líklega svo ómerkilegur að ekki var haft fyrir því að þrífa hann; enn í dag má merkja gráa, steingerða hlandskán á honum innanverðum. Koppurinn varðveittist hins vegar og er nú til sýnis í Glaumbæ, hvar undirritaður hefur margsinnis orðið vitni að miklum vangaveltum og viðbrögðum safngesta, sem koppurinn veldur, enda hinn merkilegasti gripur. Ætli klósettið mitt endi á safni einn daginn?

Þetta vekur mann til umhugsunar um samtímann. Við gefum sjaldnast mikinn gaum þeim hlutum sem eru daglegir þættir hversdagsins. Sleifar, ísskápar, stólar og föt sveima hjá huga okkar eins og andvari að vori, nánast án þess að við verðum tilvistar þeirra vör. Flest fer okkar ógrynni skrans loks á haugana, þegar dagar þess eru taldir. En hversdagsleiki íslensku þjóðarinnar er merkilegt fyrirbæri, þótt við sjáum það ekki núna, og mun án nokkurs vafa taka feykilegum breytingum í framtíðinni. Hann er einstakt fyrirbæri – stórmerkilegt – og verður senn að eilífu glataður í elfi tímans. Allir tímar eru nefnilega sögulegir tímar, og það sem við notum hversdagslega ber sögu okkar vitni betur en nokkuð annað eftir að við deyjum. Gerum ekki lítið úr þeirri sögu, heldur gerum henni góð skil, afkomenda okkar vegna. Þeir verða því fegnir.

Fáum dettur í hug að halda upp á lottómiðana sína.

Virkilega er ánægjulegt að nú hyllir undir nýtt menningarhús á Sauðárkróki, sem hýsa á m.a. safngripi og skjöl. Bygging hússins er vottur um framsýni þeirra sem að því standa og er það vel. Byggðasafn Skagfirðinga fagnar þessum áfanga og því, að áfram verði unnt að halda sögu Skagfirðinga til haga.

Heimildir:
1) Halldór Laxness. (1942). Sálarfegurð í mannabústöðum. Landkostir, bls. 54. Halldór Þorgeirsson valdi. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
2) Samkvæmt heimildum við skráningu.
3) Byggðasaga Skagafjarðar: V. bindi: Rípurhreppur – Viðvíkurhreppur. (2010). Hjalti Pálsson ritstjóri. Sauðárkrókur: Sögufélag Skagfirðinga.

@ Gísli Laufeyjarson Höskuldsson

Áður birst í 21. tbl.  Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir