Geiri með fjöldasöng í Miðgarði annað kvöld
„Ég hef verið með þetta í hausnum lengi, að fá fólk til að koma og syngja sjálft. Við reyndum þetta á laugardaginn var á Græna hattinum á Akureyri og troðfylltum hann,“ segir Geirmundur Valtýssonaðspurður út í söngkvöld sem hann verður með í Miðgarði á morgun.
Hann segir stemninguna hafa verið góða og lveg yndislegt og gaman að spila undir fyrir fólkið í salnum á Græna hattinum um síðustu helgi. Í kjölfarið ákvað hann að athuga hjá Kristínu Höllu, húsverði í Miðgarði, hvort húsið væri laust núna á laugardaginn, sem svo reyndist, og þá ákveðið að slá til. „Þetta er ekki flókið, það er fólkið syngur og við spilum bara dauft undir, bæði mín lög og þau sem allir kunna,“ segir Geiri sem sjálfur spilar á harmonikku en með honum verða þeir Stebbi Gísla á hljómborð, Finnbogi Kjartans á bassa og Jói Færeyingur á trommur.
„Við ætlum að hafa stuð og stemningu og vonum að sem flestir mæti því það er ekkert gaman að þessu nema sé troðið. Við ætlum að vera á senubrúninni og spila fyrir fólkið. Í salnum og hliðarsvölum verða borð sem fólk getur setið við þannig að þetta verður eintóm gleði!
Hvort þetta sé nýjasta æðið segist Geirmundur ekki vita en honum datt þetta bara í hug af því að fólk hefur svo gaman af því að syngja eins og kom í ljós á Græna hattinum.
Fjörið byrjar klukkan níu annað kvöld og stendur a.m.k. í tvo og hálfan tíma.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.