Fyrsti leikur Stólanna í kvöld undir stjórn Pavels
Þá er bikarhelgin í körfunni yfirstaðin en Valsmenn fögnuðu þar sigri gegn Stjörnumönnum eftir spennandi leik og búa því svo vel þessa dagana að geta státað af því að geyma stóru titlana tvo í körfunni. Tindastólsmenn skutlast suður í Breiðholt í dag og etja kappi við lið ÍR sem bíður þeirra í Skógarselinu. Þetta verður fyrsti leikur Stólanna undir stjórn Pavels Ermolinskij sem skrifaði undir samning um að stjórna liði Tindastóls fram á vorið hið minnsta í kjölfar þess að Vlad hvarf af sviðinu.
Það verða eflaust margir spenntir að sjá hvort Pavel nær að snúa leik Stólanna til jákvæðari vegar en það má kannski segja sem svo að króatískir hlekkir hafi haldið aftur af mönnum upp á síðkastið. Einhvern veginn náði liðið illa að sýna hvað í því býr undir stjórn Vlads.
Á Vísir.is má finna stórfínt viðtal við nýráðinn þjálfara Stólanna, Pavel, sem segist m.a. „...alltaf hafa litið á Tindastól sem sinn helsta andstæðing á körfuboltavellinum, á sama tíma og hann hafi borið ómælda virðingu fyrir liðinu.“
„...Ef horft er yfir allar liðsíþróttir á Íslandi þá er þetta langstærsti áfanginn sem er í boði. Sama hvort horft er til körfubolta, handbolta eða fótbolta. Íslandsmeistaratitill fyrir Tindastól er það stærsta sem er í boði, og ég vil vera með í því,“ segir Pavel.
Hann segir að sér hafi verið vel tekið í Skagafirði, hann hafi átt von á að koma inn í samrýmt körfuboltasamfélag og fá góðar viðtökur en þær hafi verið framar vonum. „Það hefur verið æðislegt að finna fyrir þessari spennu, hlýju og vilja frá öllum þessa nokkru daga sem ég hef verið hérna,“ segir kappinn og tekur fram að innan liðsins hafi ekki reynst neitt vandamál varðandi hans komu sem gamals andstæðings. „Það tók okkur bara einn dag að ná úr okkur einhverjum skrýtileika með að ég sé núna hérna sem einhver þjálfari. Frá mínu sjónarhorni er þetta strax orðið mjög eðlilegt. Flestir hérna þekkja mig og eins og ég ætlaði, og kom í ljós, eru hérna toppmenn og góðir karakterar. Þetta hefur því verið tiltölulega auðvelt og þægilegt breytingaferli,“ segir Pavel.
Leikurinn í Breiðholtinu hefst kl. 19:15 og eru stuðningsmenn sunnan heiða hvattir til að mæta. Hlekkur á leikinn verður væntanlega auglýstur á ÍR karfa á Facebook í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.