Fyrsta Druslugangan á Sauðárkróki heppnaðist vel
Í gær, laugardaginn 23. júlí, var gengin fyrsta Druslugangan á Sauðárkók fyrir tilstilli Tönju M. Ísfjörð
En gamanið byrjaði þó kvöldið áður um klukkan átta þegar hist var á Grand-inn bar, þar sem fram fór svo kalla prepp-kvöld, þar sem gerð voru skilti fyrir gönguna og stemmingin var góð.
Daginn eftir var hist við Árskóla, klukkan hálf tólf, þar sem í boði var að kaupa varning og frá útdeilt skilti til að bera í göngunni. Rúmlega 60 manns voru mætt á svæðið og klukkan tólf var þrammað af stað í fylgd lögreglu niður Skagfirðingabrautina og staðar numið fyrir framan lögreglustöðina þar sem kölluð voru nokkur vel valin orð. Göngunni var svo haldið áfram niður á planið hjá Kaffi Krók og þar sem Tanja tók fyrst til máls og talaði meðal annars um að gangan væri líklega mikilvægari í litlum samfélögum en í þeim stærri. Henni fylgdu svo Aðalheiður Alenu Jóhannsdóttir með ljóð, Ólöf Tara með ræðu, Erla Einarsdóttir með ljóð eftir Soffíu og ræðu, Silja Björk Björnsdóttir með ræðu, Þórhildur Gyða Arnarsdóttir með ræðu og Pálína Ósk Ómarsdóttir með ræðu. Síðast en ekki síst steig Tanja Ísfjörð aftur upp á svið (eða gangstétt) og helt annað erindi ásamt því að flytja tvö lög sem tengd voru þema göngunnar, sem var valdaójafnvægi, ásamt Brynjari Rögnvaldssyni.
Lokaorð göngunnar frá Tönju voru svo “Ég vil þakka Þresti hjá Myndun, Sigurjóni Haukssyni, mömmu minni Lindu Rós, Alenu, Árskóla, Rögnvaldi og Binna, Selmu og Tomma ásamt fleirum fyrir veitta hjálparhönd. Ég vil þakka Ásgeiri í Hlíðarkaup, Grand Inn, Sveitarfélaginu Skagafirði, KS á Eyrinni, Nýprent og Trésmiðjunni Ýr fyrir þeirra styrki og stuðning. Soffíu, Mallý, Betu Ásmunds og samstarfskonum mínum í Öfgum vil ég þakka sérstaklega fyrir þeirra þátttöku og fyrir alla veitta aðstoð við skipulagningu þessa viðburðar. Síðast en ekki síst vil ég þakka Erlu Einarsdóttur sem hefur verið mín stoð og stytta í öllu skipulaginu, gangan hefði ekki orðið að veruleika án þinnar aðstoðar.”
Þegar blaðamaður spurði Tönju eftir gönguna hvernig henni hafi fundist til takast sagði hún að hún hafi verið ánægð með mætinguna þó hún hefði viljað sjá fleiri Sauðkrækinga, sem hún vissi að væru heima. Hún sagði líka að það væri vont og umhugsunarvert að henni hafi borist fjöldi skilaboða frá þolendum og aðstandendum þolenda sem ekki þorðu að mæta vegna hræðslu. En hún sagðist samt vera þakklát þeim sem mættu og að styrkurinn og samstaðan væru ómetanleg.
/IÖF
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.