Fullt hús og rúmlega það á Græna Salnum í Bifröst

Listafólkið mætti allt á svið í lokin og tók Wish You Were Here, gömlu góðu Pink Floyd ballöðuna. MYND: HELGA SIGURBJÖRNS
Listafólkið mætti allt á svið í lokin og tók Wish You Were Here, gömlu góðu Pink Floyd ballöðuna. MYND: HELGA SIGURBJÖRNS

 Það voru um 130 gestir og 30 flytjendur í níu atriðum sem skemmtu sér konunglega á tónleikunum Græni Salurinn sem fram fóru í Bifröst 22. júní sl. Fjörið hófst hálfníu að kvöldi og stóð fram yfir miðnætti og því hefur verið fleygt að þetta hafi verið albestu tónleikarnir hingað til.

Fyrstur á svið var Gillon sem spilaði eldra efni í 20 mínútur við mikla hrifningu gesta – engu gleymt sá meistari. Tekin voru lög af nýjustu plötu Gillons, Bláturnablús (2022) og fyrstu plötunni, Næturgárun (2012), auk lagsins Rauða hjartað sem er enn óútgefið en engu að síður samið árið 1990 og frumflutt á sviðinu í Bifröst árið 1991.

Hin forna ballsveit, Týrol, steig næst á svið Bifrastar og tók tvö lög, Bassalagið og Bak við teskeið. Þeir félagar, Eiki Hilmis, Ægir Ásbjörns, Guðbrandur Guðbrands og Margeir Friðriks, fóru einnig með texta og gamanmál en Kristján Kristjáns trommaði í fjarveru Gunnars Inga.

Tilraunaeldhúsið, hundasúrurnar og söluskatturinn hrærðu í nokkur gömul og góð lög með þá Ellert Jó nýheimfluttan og Eika Hilmis í framlínunni. Við bak þeirra var vösk sveit snillinga, Jói á steikarpottinn, Margeir, Guðbrandur og Eysteinn.

Skólahljómsveitin byrjaði að sjálfsögðu á að taka Teach Your Children sem Crosby, Stills; Nash og Young gerðu heimsfrægt. Svo tók hin unga Lára Sig 9 to 5 með tilþrifum og var haft á orði að hennar nafn myndi örugglega heyrast oft í framtíðinni. Guðrún Brynleifs reif sig frá skrifstofuvinnunni hjá Landsvirkjun og skellti sér í föt Diddúar í laginu Nei sko! með fínum árangri og að lokum söng Ása Svanhildur Ordinary day af mikilli innlifun. Á bak við söngkonurnar voru Röggi, Siggi í Ketu, Kári Mar, Margeir og Ægir sem tók einu feilnótu kvöldsins.

Hljómsveit Baldvins I Símonar var næst á svið þar sem Valgerður Erlings blés í munnhörpuna og söng af list. Nýr/gamall bassaleikari var dreginn á flot, Smári Eiríks, en hann hafði ekki spilað á bassann að neinu gagni í 30 ár. Doktorinn Héðinn Sigurðsson lék á hljómborð, Baldvin Ingi Símonar á gítar og Kristján Kristjánsson á trommur. Þá fengu þau til liðs við sig þá Bifrastarbræður, Inga Sigþór, Róbert og Palla Friðriks, til að syngja bakraddir i stuðmannalaginu Haustið '75.

Stórskotasveit KRK steig þá á stokk en þar voru feðgar á ferð og börðu bumbur. Kristján Reynir og Kristján pabbi hans mættu semsagt til leiks auk Eysteins Ívars, Jakobs Loga, Sævars Árna, Inga Sigþórs og Emelíönu Lillý og tóku geggjaðar útgáfur af Rosanna með Toto og Nutbush City Limit með Tinu Turner auk fleiri laga. Bakraddir voru í höndum Róberts og Elvu Bjarkar. Magnað grúf.

Ég, Silla, börnin og Arnar frændi. Þessa hljómsveit setti Vignir Kjartans saman rétt fyrir tónleikana en það má segja að hún sé unnin upp úr ýmsum útgáfum af böndum sem Silla, Fúsi, Vignir og Arnar Kjartans hafa troðið upp með fyrir tónleikana undanfarin ár auk Magnúsar Freys Gíslasonar sem átti ekki heimangengt í þetta skiptið líkt og Sigfús Ben. Það var því gripið til þess ráðs að sjanghæja fjölskyldumeðlimi af Öldustígnum (Silla) og Suðurgötuni (Vigni) í þetta verkefni til að leysa þá félaga af og vera með. Börnin Víkingur Vignis, Eysteinn og Lillý Guðbrands voru því mætt til leiks.

Bára og Dúddarnir voru næst-síðust á svið og fóru með gesti í geggjað jazz-, rúmbu- og fönkferðalag. Eftir það algleymi spiluðu þau undir hjá nokkrum heimasöngvurum í lögum með Pink Floyd, Sting, Patsy Cline, Bjögga Halldórs og fleirum. Það voru Ægir, Guðrún og Elva Björk, Róbert og Ingi Sigþór sem sungu.

Dúddarnir voru ekki skipaðir neinum aukvisum. Fremstur í flokki fór Blönduósingurinn Lárus Halldór Grímsson hljómborðsleikari, tónskáld, flautuleikari, blásturskennari og skólastjóri Skólahljómsveitar Vestur- og Miðbæjar Reykjavíkur. Hann hefur spilað með Sinfóníunni og inn á plötur með Villa Vill og þá var Lárus á sínum tíma í Þursaflokknum, Eik, Þokkabót og MX-21 með Bubba Morthens. Þá skal telja til Báru Sigurjónsdóttur blástursleikara og tónlistarkennara, Sigga Reynis trommara, sem spilaði með Drýsli, Þrumuvagninum og Egó svo fátt eitt sé nefnt, og Svein Frímann Bjarnason bassaleikari sem er í Major Dudes. Að lokum skal nefna til sögunnar Sævar Árna gítarleikara. Hann hefur spilað með ýmsum í gegnum tíðina, m.a. Pops. Sævar er 76 ára systursonur Róars Jóns, elsta Króksarans sem varð 101 nýverið, og er í fimm hljómsveitum í Reykjavík um þessar mundir. Þá er hann stjúpi Bjarkar Guðmunds og samdi og spilaði gítar í Arabadrengnum sem Björk söng árið 1977, 12 ára gömul. Þetta voru því legends!

Pilli Prakkó endaði síðan frábært kvöld með lög Bjartmars Guðlaugs í forgrunni. Mikið stuð á þeim bænum eins og endranær. Sveitin örlítið breytt frá fyrri tónleikum þar sem Guðna Friðriks og Fúsa Ben var sárt saknað. Í þeirra stað komu þrír magnaðir drengir; þeir Svavar Sigurðsson, Víkingur Ævar Vignisson og Eysteinn Ívar Guðbrandsson og stóðust allar væntingar Pillans. Aðrir í bandinu voru þau Silla Eysteins, bræðurnir Arnar og Vignir Kjartanssynir og Pilli Prakkó sjálfur.

Að lokum mættu allir þátttakendur á sviðið og sungu og spiluðu Pink Floyd lagið Wish You Were Here, í minningu Magnúsar Helgasonar.

Þá má geta þess að Sigurbjörn Björnsson (Sibbi) sá um hljóðblöndun og Helga dóttir hans um ljósin.

- - - - - -
Textann settu Guðbrandur Ægir og Óli Arnar saman. Ljósmyndir tóku Baldvin Símonar, Bára Jóns, Helga Sigurbjörns, Lárus Grímsson og Sigurbjörn Björnsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir