Fjölda lóða skilað í Nestúni og því tíu lausar
Á síðasta fundi skipulagsnefndar Skagafjarðar voru alls níu, áður úthlutuðum, íbúðarlóðum í Nestúni á Sauðárkróki skilað inn. Lausar lóðir í Skagafirði eru nú aðgengilegar í Kortasjánni á heimasíðu sveitarfélagsins.
Að sögn Sigríðar Magnúsdóttur, formanns nefndarinnar, eru alls konar ástæður fyrir lóðaskilunum og bendir á að hagkerfið í landinu sé ekki að hjálpa til en það hafi ekki endilega ráðið úrslitum hjá flestum.
Hvort þessi aukning á lausum lóðum á Sauðárkróki hafi einhver áhrif á uppbyggingu Sveinstúns, nýs hverfis við suðurmörk bæjarlandsins á milli Sæmundarhlíðar og Sauðárkróksbrautar og sunnan Skagfirðingabrautar, er Feyki ekki ljóst þar sem fyrirspurn til Sveitarfélagsins um það hefur ekki borist.
Á heimasíðu sveitarfélagsins segir frá því að nú séu lausar lóðir í Skagafirði aðgengilegar á Netinu, nánar tiltekið í Kortasjánni á heimasíðu sveitarfélagsins og segir Sigríður að það verði tengt reikniforrit sem aðstoðar við að sjá kostnað við hverja lóð. Þar eru einnig notkunarleiðbeiningar.
Tilgangur sveitarfélagsins með þessari þjónustu er að gera upplýsingar aðgengilegri fyrir almenning og auka gagnsæi í upplýsingaflæði, segir á heimasíðu Skagafjarðar og þess getið að þegar nýjar lóðir eru auglýstar lausar til úthlutunar eru gjarnan aðrar lóðir einnig lausar til úthlutunar sem frjálst er að sækja um.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.