„Feðraveldið að kljást við láglaunakonur“
Víðtækar verkfallsaðgerðir BSRB í 29 sveitarfélögum hófust sl. mánudagsmorgun eftir að samningafundi við Samband íslenskra sveitarfélaga hjá Ríkissáttasemjara lauk fyrr um nóttina án niðurstöðu. Ná aðgerðir m.a. til starfsfólks í leikskólum, sundlaugum, íþróttamannvirkjum, þjónustumiðstöðvum, bæjarskrifstofum, áhaldahúsum og höfnum í 29 sveitarfélögum og er Skagafjörður eitt þeirra.
Misjafnt er eftir starfsstöðvum hversu lengi verkfallið mun vara en verkfallið nær til félagsmanna Kjalar og mun því hluti starfsfólks sveitarfélagsins leggja niður störf á meðan verkfalli stendur.
„Við eigum ekki orð yfir því að sveitarfélögin séu ekki tilbúin að jafnsetja sína starfsmenn á tímum jafnréttis og það að vera með jafnlaunavottun sem gengur út á það að fólk sem er í sambærilegum störfum fái sömu laun,“ sagði Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður og framkvæmdastjóri Kjalar í samtali við Feyki í gær og fullyrti að hér væri feðraveldið í rauninni að kljást við láglaunakonur.
Þegar þetta er skrifað er deila BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga óleyst en hnúturinn snýst um það að fá eingreiðslu sem jafni kaup annarra sem vinna sömu eða sambærileg störf, jafnvel inni á sömu vinnustöðum og fengu launahækkun 1. janúar. Samningar BSRB runnu hins vegar ekki út fyrr en 31. mars og í því liggur mismunurinn.
„Þau voru með hærri laun í janúar, febrúar og mars og eru enn þar sem við erum ekki búin að semja. Staðan er þannig að þau ætla ekki að gangast í því að greiða starfsmönnum eingreiðslu sem hefur engin framtíðaráhrif heldur er bara eingreiðsla til að jafnsetja fólk á ársgrundvelli, þessu neita þeir. Við höfum ekki heimild til að fá þessa jafnlaunasetningu og í ljósi sögunnar hefði það ekki þótt neitt vandamál hér áður fyrr.“
Jakobína segir stöðuna bagalega og kennir „aftursætisbílstjórunum“ í samninganefndinni um. „Það eru bæjarstjórarnir sem eru að stoppa þessa greiðslu af því að þeir eru fastir í einhverju prinsippi. Þeir passa sig ekki á því að þetta er þeirra eigið starfsfólk sem þeir eru að mismuna, vilja ekki rétta hlut sinna starfsmanna.“
Verkfallsbrot
Aðspurð hvort einhver verkfallsbrot hafi átt sér stað hér í Skagafirði kveður hún svo vera. „Það voru framin verkfallsbrot á Hofsósi bæði í leikskólanum og sundlauginni sem felast í því að matráðurinn á leikskólanum er í verkfalli og voru börnin látin koma með nesti inn í skólann. Verkfallsbrotið í sundlauginni fólst í því að unglingur í unglingavinnu var sjanghæjaður í sundlaugina í gær [mánudag] til að þrífa hana þar sem vantaði mann á vakt, sem var í verkfalli. Á hvítasunnuhelgina var félagsmaður Öldunnar látinn þrífa sundlaugina hátt og lágt. Lögðu það á einn starfsmann um hvítasunnuhelgi þegar aðrir voru í verkfalli.
Mér finnst það ekki í lagi að koma svona fram við starfsfólk sem er ekki í verkfalli, og leggja á það ómælda vinnu. Sundlaugin er vissulega tæmd á þessum árstíma en þá eru líka allir við störf, en aldrei um hvítasunnuhelgi,“ segir Jakobína ákveðin og ítrekar að hér sé um skýrt brot að ræða. „Verkfall er þannig að þú mannar ekki í staðinn fyrir þann sem er í verkfalli og þú leggur ekki ómælda vinnu á hina sem eru að störfum eins og þessi alþrif á sundlauginni á Hofsósi. Það eru sveitarstjórarnir sem standa í vegi fyrir þessu, við værum líklega búin að semja fyrir löngu síðan hefðu þeir gefið samninganefndinni betra umboð.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.