Fáeinir aðilar að skoða áform um að reisa hótel í Skagafirði

Séð yfir gamla bæinn á Sauðárkróki þar sem sumir hafa séð fyrir sér að reisa hótel. Flæðarnar og Bílaverkstæðisreiturinn hafa verið nefnd til sögunnar sem heppileg staðsetning fyrir hótel en skiptar skoðanir hafa verið um það. MYND: JAP
Séð yfir gamla bæinn á Sauðárkróki þar sem sumir hafa séð fyrir sér að reisa hótel. Flæðarnar og Bílaverkstæðisreiturinn hafa verið nefnd til sögunnar sem heppileg staðsetning fyrir hótel en skiptar skoðanir hafa verið um það. MYND: JAP

Ísland er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem aldrei fyrr og nýting á hótelherbergjum alla jafna mikil. Á Norðurlandi er hins vegar mikil þörf fyrir aukið gistirými en í frétt á RÚV kemur fram að bætt nýting utan háannatímans, vaxandi eftirspurn og þörf fyrir fjárfestingu í gistirýmum einkenni stöðuna í norðlenskri ferðaþjónustu og er þar vísað til greiningar KPMG á gistirýmum á Norðurlandi sem var unnin fyrir Markaðsstofu Norðurlands.

Nýting hótelherbergja á stærri stöðum á Norðurlandi er í hæstu hæðum og stærri hótel á þeim stöðum svo gott sem fullbókuð yfir háannatímann. „Þessu til viðbótar er útlit fyrir aukna eftirspurn yfir vetrarmánuðina og sýnir greining KPMG að nýtingarhlutfall gistirýma muni hækka í samræmi við það,“ segir í frétt á RÚV og er aukið millilandaflug um Akureyrarflugvöll ein helsta ástæða aukningarinnar.

Við hér á Norðurlandi vestra stöndum mun verr að vígi varðandi framboð á hótelherbergjum en vinir okkar á Norðurlandi eystra en stór hótel eru á Akureyri, Húsavík og við Mývatn. Hér á Norðurlandi vestra má segja að Hótel Laugarbakki sé eina stóra hótelið á svæðinu. Í Skagafirði eru hótelin tiltölulega lítil en þau eru fjögur sem starfa allt árið um kring; Hótel Tindastóll á Sauðárkróki, Hótel Varmahlíð, sveitahótelið Hofsstöðum og loks lúxushótelið á Deplum í Fljótum sem telst sennilega ekki ætlað hinum almenna ferðamanni. Það hefur því lengi verið horft til þess að í Skagafirði rísi stórt hótel sem geti tekið á móti stórum hópum.

Feykir spurði Sigfús Inga Sigfússon, sveitarstjóra Skagafjarðar, hvort unnið hefði verið að því að reyna að lokka hótelkeðjur eða fjárfesta til að byggja hótel í Skagafirði. Sigfús segir sveitarfélagið hafa verið í tengslum við nokkra aðila í gegnum tíðina um heppilegar staðsetningar fyrir hótelbyggingar í Skagafirði. „Ég veit að það eru fáeinir aðilar að skoða slík áform um þessar mundir,“ segir Sigfús Ingi.

Er nálægðin við Akureyri akkilesarhæll Skagafjarðar í þessum málum? „Líklega bæði og. Mögulega finnst sumum fjárfestum eða rekstraraðilum Skagafjörður það nærri Akureyri að hótel þar geti að einhverju leyti dekkað traffík sem fer hér um. Svo eru aðrir sem horfa til þess að dreifa þurfi ferðamönnum og álagi vegna þeirra víðar um landið, fjölga viðkomustöðum og tryggja betri heildarafkomu greinarinnar. Skagafjörður hefur margt að bjóða fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn, ráðstefnugesti, árshátíðargesti, gesti sem vilja koma hingað í hvataferðir, fara á skíði o.fl.,“ segir Sigfús.

Fram hefur komið í fréttum að nú sé ætlunin að ráðast í endurnýjun gamla bæjarins á Blönduósi og þar eru framkvæmdir við hótelið þegar komnar í gang.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir