Er sumarið þá búið?
Þessari spurningu laust upp í huga blaðamanns Feykis í morgun er hann vippaði sér út í morgungönguna með hundinn og Morgunblaðið. Þykkt hrímið á framrúðu heimilisbílsins gaf það skýrt til kynna að hitastig næturinnar hafi verið ansi lágt og kartöflugrös og berjalyng hafi fengið að vita að stutt sé eftir af þeirra sögu. Hvítir fjallatoppar frá nóttinni áður ýttu einnig undir þessa vangaveltu; er sumarið þá búið?
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir á síðu sinni Bliku um helgina að nú fjari undan sumri þar sem tíu daga spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar tali sínu máli. Spáð sé kunnuglegu lægðardragi í háloftunum yfir landinu.
„Upp úr 20. ágúst er að sjá í langtímaspám að farið verði að hausta í háloftunum a.m.k. yfir Grænlandi. Á spákortinu fyrir 21. ágúst má sjá stækkandi bláan blett með lágri þykkt. Um þetta leyti tekur oftast að kólna á norðurhjaranum þegar sól er tekin að lækka til muna,“ skrifar Einar.
„En er sumarið þar með búið??“ spyr Einar líkt og aðrir sem ekki hafa orðið varir við mikið sumar á Íslandi. „Alls ekki víst,“ svarar hann sjálfum sér. „Sjáum ekki fram í september. Geri þá hægstæðar vindáttir, þá verður enn af nægu sumarlofti af taka við austurströnd N-Ameríku. Ekkert fast í hendi og alls ekki hægt að útiloka hlýindakafla framan af í september,“ segir hann og það væri nú gaman ef sú spá rætist.
Kaldasta ágústbyrjun aldarinnar
Mynd tekin í gær austur yfir Héraðsvötn
þar sem hvítir fjallatopparnir njóta sín
í sólinni. Mynd PF.
„Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar hafa verið svalir víðast hvar á landinu. Meðalhiti í Reykjavík er 10,2 stig, -1,4 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991-2020 og -1,3 neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er kaldasta ágústbyrjun á þessari öld,“ skrifar Trausti Jónsson, veðurfræðingur á sinni síðu, Hungurdiskar. „Hlýjast var sömu daga 2003, meðalhiti 13,5 stig. Á langa listanum er hitinn í 115. sæti (af 150). Hlýjast var 2003, en kaldast 1912. Meðalhiti þá var aðeins 6,4 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú 10,6 stig, -0,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -0,4 neðan meðallags síðustu tíu ára.“
Trausti bendir á að hita sé nokkuð misskipt á landinu. „Þetta er kaldasta ágústbyrjun aldarinnar við Faxaflóa og á Suðurlandi, en að tiltölu hefur þetta verið 8. hlýjasta ágústbyrjun á Austfjörðum (af 22). Þar hefur hiti verið yfir meðallagi.
Neikvætt hitavik er mest í Bláfjallaskála, -2,0 stig og -1,7 á Setri og Skálafelli. Hlýjast, að tiltölu, hefur verið í Neskaupstað, hiti hefur verið þar +1,1 stigi ofan meðallags.“
Væta í kortunum
Veðurspá Veðurstofu Íslands fyrir Strandir og Norðurland vestra gerir ráð fyrir hæga breytilega átt í dag og léttir til og hiti verður frá 4 stigum til 9. Fremur hæg suðlæg átt og stöku skúrir seint á morgun og hiti 8 til 13 stig.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag:
Austlæg átt 5-13 m/s og rigning sunnan- og austanlands, en skúrir í öðrum landshlutum. Hiti 9 til 16 stig, svalast á Austfjörðum.
Á föstudag:
Norðan 3-10 m/s og skúrir, en allhvass vindur og rigning norðvestantil. Hiti 5 til 13 stig, svalast á Vestfjörðum.
Á laugardag:
Stíf norðanátt á vesturhelmingi landsins, en mun hægari austantil. Rigning og svalt í veðri fyrir norðan, en bjart sunnan heiða og hiti að 15 stigum syðst.
Á sunnudag:
Áframhaldandi norðlæg átt með skúrum, en bjart að mestu syðra. Hiti breytist lítið.
Á mánudag:
Útlit fyrir austanátt og úrkomulítið veður. Hlýnar fyrir norðan.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.