Er að prufa að prjóna sokka í fyrsta skiptið

Guðrún Aníta Hjálmarsdóttir er fædd og uppalin á Sauðárkróki og flutti á Austurland vorið 2020 til þess að vinna í lögreglunni. Síðan þá er hún búin að kaupa hús á Eskifirði og er í sambúð með Ívari Birni Sandholt sem vinnur einnig í lögreglunni og eignuðust þau stelpu í byrjun ágúst 2021. Guðrún Aníta er aðallega að prjóna á börn í fjölskyldunni og svo núna á hennar eigið. Hún er reyndar byrjuð á tveimur fullorðinspeysum en þær eru ekki tilbúnar ennþá.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?

Ég lærði að prjóna í Árskóla en hafði lítinn áhuga á því þá. Síðan í mars í fyrra ákvað ég að nú væri tími til kominn og byrjaði á barnapeysu. Með hjálp Youtube og þó nokkrum myndsímtölum með frænku minni kom þetta mjög fljótt.

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust?

Ég held að það sé að prjóna, hef ekki prufað að hekla ennþá en það hlýtur að koma að því. En ég held mest upp á það að prjóna barnaflíkur, þær eru svo krúttlegar og líka því það fer gríðarlega mikill tími og mikil vinna í fullorðinsflíkur.

Hverju ertu að vinna að þessar mundir?

Ég er að gera Lauf ungbarnapeysu á krílið og er að prufa að prjóna sokka í fyrsta skiptið.

Hvar fékkstu hugmyndina?

Ég skoða mikið af prjónasíðum og er í nokkrum prjónahópum á Facebook, þar fær maður margar hugmyndir. En Lauf peysuna sá ég inn á ammaloppa.is og fékk uppskriftina þaðan.

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með?

Ég hugsa að það sé bara fyrsta flíkin sem ég prjónaði. Þó hún hafi alls ekki verið gallalaus og ég útfærði uppskriftina á mjög svo rangan hátt, en það á þá bara enginn alveg eins flík og litla frænka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir