Enn ein óveðurslægðin yfir landinu
Veðurstofan hefur gefið út viðvaranir vegna veðurs í dag en vaxandi austanátt er í kortunum fyrir daginn og fer að snjóa sunnan til með frosti frá 0 til 12 stig. Austan 18-25 m/s síðdegis og víða snjókoma, en 23-28 syðst á landinu fram á kvöld með talsverðri ofankomu. Mun hægari vindur á Norðaustur- og Austurlandi. Hlýnar heldur.
Í athugasemd veðurfræðings á heimasíðu Veðurstofu Íslands segir að norðaustan 15-25 verði í fyrramálið, hvassast á Suðausturlandi. Dregur síðan úr vindi, 5-15 m/s seinnipartinn á morgun. Víða él, en úrkomulítið suðvestan til. Frost 0 til 7 stig.
Gul veðurviðvörun er fyrir meginhluta landsins í dag tekur sú fyrsta gildi fyrir hádegi á Suðurlandi sem breytist svo í appelsínugula líkt og gerist á Suðausturlandi, Faxaflóasvæðinu og á Vestfjörðum.
Upp úr miðjum degi tekur gul viðvörun gildi á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra þar sem gert er ráð fyrir austan hvassviðri eða storm sem stendur fram á morgun.
„Austan hvassviðri eða stormur 15-25 m/s og hviður sums staðar yfir 35 m/s í vindstrengjum við fjöll, t.d. í Skagafirði. Einnig snjókoma með takmörkuðu skyggni. Lausir munir gætu fokið og færð gæti spillst.“
Á umferðarvef Vegagerðarinnar, umferdin.is, eru ökumenn minntir á að vegir sem skráðir eru í þæfing séu illfærir eða ófærir fyrir eindrifsbíla. Þungfærir vegir eru ófærir fyrir eindrifsbíla og illfærir fyrir fjórhjóladrifna fólksbíla.
Á yfirliti Vegagerðarinnar fyrir Norðurland kemur fram að snjóþekja sé á Öxnadalsheiði en hálka eða hálkublettir á flestum öðrum vegum. Vegfarendur um Siglufjarðarveg eru beðnir að sýna aðgát vegna hættu á grjóthruni í umhleypingum næstu daga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.