Eldað með Air fryer

Nú ætlar Feykir að mæla með nokkrum Air fryer uppskriftum því annað hvort heimili er komið með svona snilldar græju. En það eru samt margir hræddir við að nota hann svona fyrst en það er um að gera að láta vaða og prufa sig áfram. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Air fryer lofsteikingarpottur sem er blanda af bakstursofni og djúpsteikingarpotti, fyrst og fremst hannað til að líkja eftir djúpsteikingu án þess að sökkva matnum í olíu. Vifta dreifir heitu lofti á miklum hraða og framleiðir stökkt lag en heldur matnum safaríkum.

Tækið er alveg upplagt til að útbúa hollari útgáfur af réttum sem þarf venjulega að nota mikla olíu eða fitu í. En það þarf samt sem áður oft að nota smávegis olíu þegar þessi matur er eldaður í Air fryer. Ekki nota ólífuolíu því hún brennur við háan hita. Betra er að nota repjuolíu eða sólblómaolíu í staðinn.

Fyrstu tvær uppskriftirnar fékk ég eftir að hafa staðið námskeið hjá Farskólanum hjá Ástu Búadóttur í vetur og var námskeiðið rosalega vel sótt. Fyrir þá sem langar til að prufa sig meira áfram með uppskriftir geta líka keypt sér bókina Eldað með air fryer. Bókin inniheldur yfir 100 uppskriftir sem spanna allt frá einföldum forréttum upp í sunnudagssteikina. Einnig er komið inn á bakstur og eftirrétti sem hægt er að galdra fram með pottinum. Höfundur bókarinnar er Erla Steinunn en hún hefur haldið úti uppskriftasíðunni uppskrift.is til margra ára en þetta er fyrsta bókin sem er gefin út á prenti eftir hana.

Ofnbakaðar safaríkar kjúklingabringur

    4 meðal stórar kjúklingabringur

    1 tsk. paprika

    1 tsk. oregano, timjan eða annað krydd að eigin vali

    ¼ tsk. hvítlauksduft

    ½ tsk. salt

    ½ tsk. pipar

    1 og ½ msk. púðursykur

    2 msk. olivuolía

Aðferð: Stillið ofninn á 200°C. Berjið létt á kjúklingabringurnar með kjöthamri eða með hnefanum. Þetta gerir þær ennþá mýkri. (en þarf ekki) Blandið kryddunum og púðursykrinum saman í skál. Leggið bökunarpappír á ofnplötu og raðið kjúklingabringunum á plötuna. Penslið eða nuddið olíunni á kjúklinginn og kryddið. Snúið honum við og gerið það saman á hinna hliðinni. Bakið kjúklinginn í 10 mínútur og snúið við bringunni og bakið í aðrar 10 mín. eða þar til hann verður gylltur (ef þú ert með kjötmæli þá á innri hitinn að vera 75°C) Púðursykurinn gerir kjúklinginn gylltan og smá karamellu-kenndan en ekki of sætann. Berið kjúklinginn fram með ykkar uppáhalds meðlæti.

Marmarakaka 

Marmarakaka er svo loftkennd og mjúk. Uppskrift í tvö álform

    175 g mjúkt smjör

    2 dl sykur

    3 egg 1 dl súrmjólk (má nota rjóma sem kominn var vel fram yfir síðustu dags.)

    4 dl hveiti

    1 tsk. lyftiduft

    ½ tsk. matarsódi

    1-2 msk. kakó

    vanilludropar

Aðferð: Egg sykur og smjör hrært vel saman, þurrefnunum nema kakóinu blandað saman við. Vanilludropum bætt við. Skipt á milli tveggja álforma, skilja eftir smá slettu af deiginu og kakóinu hrært saman við restina. Síðan er það sett með skeið ofan á deigið í formunum og stungið svolítið niður í deigið til að það blandið skemmtilega við. Bakið í 160 gráðum í 30 mínútur.

Hér koma svo tvær uppskriftir sem ég fann á netinu

Fiskur í raspi

    fiskur

    hveiti

    egg

    brauðrasp

    smá krydd að eigin vali

Aðferð: Fiskur að eigin vali ýsa, þorskur eða hvaða fiskur sem er. Byrjar á að þurrka fiskinn með eldhúspappír, velti honum fyrst upp úr hveiti, svo upp úr þeyttu eggi og loks upp úr brauðraspi með smá kryddi. Einnig er hægt að nota gullrasp. Settu fiskinn á ristina í Air fryernum, penslið hann með smá olíu og gefið honum 10 mínútur á 180°C. Snúið fiskinum  við eftir fimm mínútur, penslið yfirborðið sem nú snýr upp og gefðu honum aðrar fimm mínútur. Á meðan fiskurinn er í Air fryernum þá er gott að græja sósuna…

Sósan:

    rjómi

    fullt af steinselju, hökkuð

    1 - 2 stk fiskikraft

Aðferð: Allt sett í pott, látið suðuna koma upp og hrærið regluleg í. Þegar suðan er komin upp látið malla í lágum hita þangað til fiskurinn er tilbúinn. Ef þið viljið bera fram kartöflur með þessu þá er hér uppskrift. Kartöflurnar eru soðnar, penslaðar með smá olíu, kryddið með salti og pipar og svo settar í vöfflujárnið svo þær fái aðeins stökkt yfirborð.

Blómkàlssúpa með soyaristuðum möndlum og samloku

Súpuna gerir þú eftir leiðbeiningum á pakkanum. Á meðan súpan mallar þá græjar þú möndlurnar.

Soyaristaðar möndlur

Aðferð: Skerðu möndlur til helminga og komdu þeim í álform eða annað eldfast mót. Gefur þeim sex mínútur á 180°C, helli nokkrum dropum af soyasósu yfir þær og hræri í þeim eftir fjórar mínútur og gef þeim svo síðustu tvær mínúturnar.

Svo er það eitt mjög einfalt… samloka með skinku og osti

Aðferð: Byrjið á að smyrja brauðið með smjöri til að gera það smá crispy. Samlokan er svo sett á sex mínútur á 180 gráður með möndlunum (sjá mynd), gott að snúa samlokunni við eftir fyrstu fjórar mínúturnar þegar hrært er í möndlunum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir