Edda Hlíf ráðin prestur í Þingeyrarklaustursprestakalli

Edda Hlíf Hlífarsdóttir verðandi prestur í Þingeyrarklaustursprestakalli - mynd: Elínborg Halldórsdóttir.
Edda Hlíf Hlífarsdóttir verðandi prestur í Þingeyrarklaustursprestakalli - mynd: Elínborg Halldórsdóttir.

Á heimasíðu Biskupsstofu kemur fram að sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hafi staðfest kosningu valnefndar sem vildi Skagfirðinginn Eddu Hlíf Hlífarsdóttur, mag. theol., til að gegna embætti sóknarprests í Þingeyraklaustursprestakalli í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi.

Í kynningu Biskupsstofu segir að Edda Hlíf sé fædd á Sauðárkróki 20. júlí 1985 og hafi alist upp í Víðiholti í Skagafirði:

„Frá árinu 2007 hefur hún verið búsett í Oddakoti í Austur-Landeyjum og stundað þar hrossarækt, ásamt unnusta sínum Þráni Víkingi Ragnarssyni, verkfræðingi. Edda Hlíf er stúdent af félagsfræðibraut við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra árið 2011. Hún lauk mag.theol.-prófi frá Háskóla Íslands í febrúar 2020 og diplómanámi á meistarastigi í sálgæslufræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands í júní 2021.
Meðfram guðfræðináminu sinnti Edda Hlíf fermingarfræðslu við Breiðabólstaðarprestakall og Langholtsprestakall og æskulýðsstarfi við Guðríðarkirkju og Langholtskirkju.
Edda Hlíf hefur lokið 90 einingum í meistaranámi í guðfræði við H.Í.
Hún hefur starfað sem deildarstjóri á Vinasetrinu, stuðningsheimili fyrir börn, frá árinu 2017 og hefur auk þess starfað í Skammtímavistun á Selfossi síðastliðið ár."

Prestakallið

Þingeyraklaustursprestkall í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, samanstendur af fimm sóknum, Auðkúlusókn, Blönduóssókn, Svínavatnssókn, Undirfellssókn og Þingeyrasókn og er íbúafjöldinn um 1350, þar af 916 sextán ára og eldri í þjóðkirkjunni, börn yngri en 16 ára eru 248. Prestarnir í Húnavatnssýslu skipta með sér vaktsíma utan hefðbundins vinnutíma, viku í senn og segir á kirkjan.is að Þingeyraklaustursprestakall og Skagastrandarprestakall séu samstarfssvæði. Starfinu fylgja viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir