Dýrin á Fróni eftir Alfreð Guðmundsson komin út
Út er komin ljóðabókin Dýrin á Fróni eftir Alfreð Guðmundsson, grunnskólakennara á Króknum. Hér er um að ræða myndskreytta vísnabók um nokkur algeng íslensk dýr fyrir alla aldurshópa.
Alfreð Guðmundsson þekkja allir Króksarar enda verið starfandi grunnskóla- og íþróttakennari til margra ára í skólum bæjarins. „Ég er fæddur og uppalinn á Króknum, sonur Guðmundar Helgasonar og Ernu Ingólfsdóttur. Ég hef verið í íþrótta- og æskulýðsmálum frá því að ég man eftir mér og kennt íþróttir í aldarþriðjung. Eitt af mínum aðaláhugamálum er vísna- og kvæðagerð, en ég hef ort ansi mörg tækifærisljóð í gegnum tíðina og kollegar mínir kalla mig Skólaskáldið í gamni,“ segir Alfreð í viðtali við Feyki.
Bókin hefur að geyma 42 myndskreyttar vísur um fjórtán algeng íslensk dýr. „Vísurnar er samdar í bragarhætti er nefnist langhenda en hún hefur í öllum braglínum einu atkvæði meira en ferskeytla. Listamaðurinn Jérémy Pailler sá um myndskreytingarnar og uppsetningu bókarinnar,“ segir Alfreð sem sá um útgáfu hennar undir dyggri stjórn sonarins Guðmundar Alfreðssonar en Prentmiðlun ehf. sá um prentunina.
Frekari upplýsingar um verkið má finna á Fésbókarsíðunni Dýrin á Fróni þar sem einnig er hægt að panta bókina og þá má einnig senda inn pöntun á tölvupóstfangið ljodakver@gmail.com eða haft samband við höfundinn í síma 8650819.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.