Druslugangan snýst um að gjaldfella orðið drusla

Druslugangan 2023 fer fram á Sauðárkróki laugardaginn 22. júlí nk. Gengið verður frá Árskóla kl. 13:00 að Sauðárkróksbakarí þar sem fara fram ræðuhöld, ljóðalestur og tónlistaratriði.

Þetta er í annað sinn sem gangan er gengin á Sauðárkróki en í fyrra var hún haldin fyrst og tókst vel að sögn Tönju Ísfjörð Magnúsdóttur sem er ein af skipuleggjendum göngunnar ásamt Erlu Einarsdóttur.

Föstudaginn 21. Júlí verður „preppkvöld“ fyrir gönguna á Gránu Bistro þar sem hægt verður að búa til skilti fyrir gönguna og kaupa varning.

Hvað er Drusluganga og hver er megintilgangurinn með henni? „Druslugangan er ganga sem var fyrst gengin í Toronto árið 2011 eftir að lögreglumaður þar gerðist sekur um drusluskömmun. Þá fékk fólk nóg og mótmælti með því að taka orðið „drusla“ til baka til að gefa því ekki vægi til að draga úr alvarleika kynferðisofbeldis. Einnig til að gefa gerendameðvirkum minna eldsneyti í hatur og afvegaleiðingu. Síðar sama ár var samskonar ganga gengin í fyrsta sinn á Íslandi og hefur verið gengin síðan þá fyrir utan í covid. Í ár verður bara gengið á höfuðborgarsvæðinu og á Sauðárkróki, svo ég hvet fólk á Norðurlandi til að fjölmenna og sýna hvað landsbyggðinni er umhugað um þolendur. Megintilgangurinn er samstaða með þolendum, vitundarvakning, skilningur og valdefling. Þar sem við trúum þolendum og tökum til baka orðið drusla til að leggja áherslu á að ofbeldið sem þolendur eru beittir, er aldrei á ábyrgð þeirra, heldur alltaf á ábyrgð geranda. Með göngunni erum við að segja að það skipti ekki máli hverju þolandi klæddist, hvað hún drakk mikið, hvort hún flaðraði eða whatever - ábyrgðin er alltaf hjá þeim sem brýtur gegn öðrum einstakling og við samþykkjum ekki að vera gerðar ábyrgar fyrir ofbeldinu sem við vorum beittar!“

Hvernig hefur gengið að skipuleggja hana á Sauðárkróki? „Það hefur gengið vonum framar! Erla Einarsdóttir var mér innan handar í fyrra varðandi skipulag og er búin að taka helminginn á móti mér í ár. Mallý hefur einnig verið öflug ásamt fleirum sem rétta fram hjálparhönd. Værum auðvitað alltaf til í meiri hjálp enda er ég búsett í Noregi og verð eiginlega bara fyrir tilviljun á Sauðárkróki þegar gangan er. Fyrst ég verð á Húsavík á þessum tíma get ég ekki sleppt því að keyra á Krók í göngu. Við Binni Rögnvalds ætlum einnig að taka tvö lög eftir gönguna. Ætla samt að sleppa því að halda ræður þar sem ég talaði svo mikið í fyrra,“ segir Tanja og hlær.

Hverjar eru væntingar þínar til göngunnar í ár? „Flott veður, góður mórall og að fleiri Króksarar mæti. Það er auðvitað alltaf smá bras að byrja svona göngur í bæjarfélögum með lítið sem ekkert fjármagn. Sjálfboðaliðavinna tveggja kvenna þar sem önnur er ekki einu sinni búsett á landinu. Það væri eflaust meira aðdráttarafl ef við værum með frægt fólk í ræðuhöldum, tónlist og þar frameftir götunum en vonandi vill fólk mæta og sýna þolendum þann stuðning sem þau eiga skilið. Ps., Tónlistarfólk má endilega heyra í okkur fyrir næsta ár! Væri líka gaman að fá fleira fólk inn til að aðstoða! Við þau sem þora ekki að mæta með börn vil ég segja: að börn upplifi stuðning með þolendum trompar að kannski segi einhver orðið „nauðgun“ eða „drusla“. Bara útskýra fyrir og eftir göngu fyrir þeim - nýta þetta sem samtal við börnin. Þau sem þora ekki að mæta þar sem þau vilja ekki vera bendluð við orðið drusla eða vilja ekki láta dæma sig eða tengja við mig eða annað fólk tengt göngunni vil ég segja: þetta snýst um að taka orðið til baka. Ég skil neikvæðu merkinguna og að fólk sé skeptískt en það er ástæðan fyrir orðavalinu - að það sé ekki hægt að nota þetta orð gegn þolendum á neikvæðan hátt lengur. Reynum að líta framhjá orðum og að fýla ekki ákveðna einstaklinga - fókusum frekar á þolendur og virðinguna, skilninginn og stuðninginn sem þeir eiga skilið.“

Eru einhver fyrirtækið eða stofnanir sem leggja göngunni lið í ár? „Já! Við höfum fengið fjármagn og annarsskonar styrki frá m.a. Sauðárkróksbakaríi, Steinull, Gránu, Nýprent og Sauðá. Fengum líka nafnlausan styrk. Við erum mjög þakklátar fyrir þetta og það er gott að finna þennan stuðning með þolendum.“

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir