Dom Furness og David Romay ráðnir í þjálfarateymi Tindastóls
Það styttist óðum í að alvaran hefjist hjá knattspyrnufólki. Karla- og kvennalið Tindastóls taka nú þátt í Kjarnafæðismótinu þar sem þau lið hér norðanlands sem ná í lið taka þátt. Í byrjun febrúar hefst síðan Lengjubikarinn hjá stelpunum en strákarnir hefja leik í byrjun mars. Lengjubikarinn er aðal undirbúningsmótið fyrir Íslandsmótin en fyrsta umferðin í Bestu deild kvenna fer fram síðustu helgina í apríl. Það er því eins gott að hefja undirbúning sem fyrst og nú hefur verið gengið frá ráðningu þjálfara karlaliðs Tindastóls og markmannsþjálfara beggja liða.
Feykir spurði Donna yfirþjálfara, sem þjálfar nú kvennalið Tindastóls, hverja væri búið að næla í á Krókinn. „Við erum búin að ráða til okkar markmansþjálfarann David Romay frá USA,“ segir Donni. „David er ætlað að vera aðstoðarþjálfari mfl. kvenna ásamt því að vera markmannsþjalfari bæði mfl. kk og kvk auk allra yngri markmanna félagsins. David mun einnig koma að leikgreiningu. David er gríðarlega metnaðarfullur þjálfari með góða reynslu úr háskólaboltanum i USA auk þess sem hann var nýverið að þjálfa i efstu deild í Wales. Við væntum mjög mikils af hans störfum og vonumst til þess að hann verði hjá okkur sem lengst. David er komin til landsins og hefur hafið störf.“
Þá hefur Dominic Furness verið ráðin aðalþjálfari karlaliðs Tindastóls en hann er Króksurum að góðu kunnur enda helmingur Furness fjölskyldunnar spilandi með Stólunum sumarið 2012., „Hann gerir samning til næstu tveggja ára og við erum mjög spennt að fá hann til landsins núna i lok janúar. Dom, eins og hann er kallaður, spilaði með Tindastól i 1.deild árið 2012, þá ásamt bræðrum sínum Theo og Seb Furness. Dom var/er frábær leikmaður og átti farsælan feril sem slíkur. Hann fór til FH frá Tindastól og spilaði með þeim í efstu deild og Evrópukeppninni. Þaðan fór Dom til Svíþjóðar og spilaði með flottum liðum i næst efstu deild en eftir það var Dom keyptur til Ástralíu og Malasíu.
Donni segir að Dom Furness sé síðustu ár búin að vera í Bandaríkjunum og starfað þar sem íþróttakennari auk þess að þjálfa og mennta sig í þjálfun. Donni mun vera Dom til halds og trausts með meistaraflokk karla. „Það verður mjög spennandi að fá svona öflugan fyrrum leikmann Tindastóls til okkar og fylgjast með hans framgangi með okkar flotta lið. Dom mun einnig sjá um 2. flokk karla og vera æfingaþjálfari hjá yngri flokkum félagsins.“ Dom mun einnig vera til aðstoðar við smærri verkefni hja mfl. kvenna.
„Þessar ráðningar eru frábær lyftistöng fyrir okkar góða starf og við væntum mikils af þeim báðum,“ segir Donni að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.