Bryndís Lilja Hallsdóttir ráðin sviðsstjóri fjölskyldusviðs Skagafjarðar
Staða sviðsstjóra fjölskyldusviðs Skagafjarðar var auglýst laus til umsóknar í janúar sl. Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur nú ákveðið að ráða Bryndísi Lilju Hallsdóttur í starf sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Alls sóttu sjö um stöðuna, þar af drógu tveir umsóknir sínar til baka.
Á heimasíðu sveitarfélagsins kemur fram að Bryndís Lilja hafi lokið MS-gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands árið 2017 en meistararitgerð hennar var megindleg rannsókn sem fjallaði um starfsánægju grunnskólakennara í Skagafirði. Árið 2013 lauk Bryndís BS-námi í sálfræði, einnig frá HÍ og bætti við sig námskeiðum í viðskiptafræðideild skólans í fjármálum, rekstrarhagfræði og fjárhagsbókhaldi.
„Bryndís Lilja hefur starfað sem mannauðsstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) sl. 4 ár og situr í fimm manna framkvæmdastjórn stofnunarinnar. Hjá HSN starfa milli 600-700 starfsmenn og hefur hún yfirumsjón með ráðningum og starfslokum, sinnir ráðgjöf við stjórnendur og starfsmenn í mannauðsmálum, hefur umsjón og ber ábyrgð á launamálum og gerð stofnanasamninga og kemur að hvers kyns starfsmannamálum.
Bryndís Lilja þekkir vel til sveitarfélagsins Skagafjarðar þar sem hún starfaði hjá sveitarfélaginu á árunum 2016-18 sem verkefnastjóri í atvinnu-, menningar- og kynningarmálum og leysti mannauðsstjóra Skagafjarðar af í fæðingarorlofi 2015-16,“ segir á skagafjordur.is.
Nöfn þeirra sem sóttu um stöðu sviðsstjóra fjölskyldusviðs eru eftirfarandi, í stafrófsröð:
- Auður Inga Ingimarsdóttir, deildarstjóri
- Bryndís Lilja Hallsdóttir, mannauðsstjóri
- Kristín Ella Guðmundsdóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks
- Oddur Sigurðarson, framkvæmda-, fjármála- og þjónustustjóri
- Ólafur Jóhann Sigurðsson, starfsmaður á velferðarsviði Reykjavíkurborgar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.