Brautskráning frá Háskólanum á Hólum
Síðastliðinn föstudag var brautskráningarathöfn við Háskólann á Hólum og var hún haldin í húsakynnum Sögusetursíslenska hestsins. Ellefu nemendur brautskráðust að þessu sinni; fimm frá Ferðamáladeild, sömuleiðis fimm frá Fiskeldis og fiskalíffræðideild og loks brautskráðist einn nemandi frá Hestafræðideild.
Af Ferðamáladeild brautskráðust tveir með diplómu í viðburðastjórnun, tveir með diplómu í ferðamálafræði og einn með MA gráðu í Ferðamálafræði. Frá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild brautskráðust allir fimm einstaklingarnir með diplómu í fiskeldsfræðum.
Nemandinn af Hestafræðideild brautskráðist með diplómu í reiðmennsku og reiðkennslu - tamningapróf.
Á heimasíðu Háskólans á Hólum kemur fram að Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor, og nýbrautskráður meistaranemi Deisi Trindade Maricato og fulltrúi nemenda, fluttu ávörp við athöfnina sem var gleðistund. Enda höfðu flestir nemendurnir lagt stund á nám við mjög krefjandi aðstæður þegar samkomutakmarkanir og samkomubönn voru tíð á þessu tímabili.
Um tónlistarflutning við athöfnina sá Eysteinn Guðbrandsson.Að athöfn lokinni bauð háskólinn nýbrautskráðum Hólamönnum, aðstandendum og starfsfólki til veglegrar veislu sem Kaffi Hólar sáu um.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.