Bjartsýnn á að fjórða sætið verði í höfn í vor - Liðið mitt Guðmundur Sigurbjörnsson West Ham

Engum sögum fer af afrekum Guðmundar á vellinum, sem eru prenthæfar. Aðsend mynd.
Engum sögum fer af afrekum Guðmundar á vellinum, sem eru prenthæfar. Aðsend mynd.

Guðmundur Sigurbjörnsson, flokksstjóri hjá Vegagerðinni, er Hofsósingur í húð og hár og segist alltaf verða það þrátt fyrir að hann búi nú á Sauðárkróki. Hann heldur með hinu fornfræga liði járnsmiðanna við Thames ána í London, West Ham United en það var sjóðheitur leikmaður Kormáks Hvatar sem skoraði á Guðmund að svara spurningum í Liðinu mínu í Feyki.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Ég er svo gamall í þessu og oft verið bras þannig að allt annað en fall úr efstu deild er bara fínt, en ég er að vona að fjórða sætið verði okkar.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -,Jú við erum að berjast við Arsenal um fjórða sætið, það er ágætt.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Ó já, hjá því hefur ekki verið komist þar sem tengdafaðir minn og tveir af þremur sonum hans eru Poolarar en sá þriðji er Leedsari, sem reyndar hefur ekki farið mikið fyrir lengi.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Án efa Robert Frederick Chelsea Moore, eða eins og hann var alltaf kallaður Bobby Moore.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Mikið hefði ég viljað fara á leik á gamla Boleyn Ground en það er víst of seint en ég fór á Laugardalsvöll á leik West Ham og Manchester City.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Eitthvað er til af dóti; treyjur, könnur og fleira.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Það gekk barasta ekki neitt, þar var algerlega siglt í strand og þar tapaði ég fyrir tengdaföður mínum og mágum, þeir náðu báðum drengjunum í Liverpool, en ég hef lúmskan grun um að hún Guðrún mín sé svona leyniaðdáandi.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Það kæmi aldrei nokkurn tíma til mála. Þegar maður er búinn að halda með þeim í gegnum allar ófarir á milli deilda upp og niður þá gerir maður ekki svoleiðis.

Uppáhalds málsháttur? -Betra seint enn aldrei (að vinna titla).

Einhver góð saga úr boltanum? -Ef spurningin er um mína sögu á vellinum þá er það ekki prenthæft.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Úfff ,hvar skal byrja? Betra að sleppa því bara.

Spurning frá Arnóri Guðjónssyni: -Nær West Ham 4. sætinu eða verður þetta vonbrigðatímabil enn eina ferðina?

Svar: -Sko Arnór minn, eftir að við unnum Chelsea og Liverpool í haust þá er engin hætta á vonbrigðum og fjórða sætið er okkar þegar þetta er skrifað.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Ég skora á Leedsara og eðal Hofsósing, fyrrverandi fisksala í Mjóddinni, Hólmgeir Einarsson.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Verður Bielsa að læra ensku til að ná einhverju almennilegu út úr þessum ágætis leikmönnum svo þeir spili ekki í næst efstu deild á næsta tímabili?

Áður birst í 5. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir