Lasanja að hætti Rósinberg og brauðið góða
Að Hlíðarvegi 24 á Hvammstanga eru til heimilis Elín Jóna Rósinberg, matgæðingur úr tbl 46, 2022, Dagur Smári, einkaerfinginn hennar, og Eva Dögg, uppáhalds tengdadóttirin. Þau mæðgin hafa alla tíð búið í Húnaþingi vestra, fyrir utan námstíma Elínar, en hafa þó aldrei verið með lögheimili annars staðar og Eva Dögg er ættuð frá Hvammstanga.
Elín Jóna er viðskiptafræðingur og með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu. Hún starfar nú sem sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs hjá sveitarfélaginu og er aðaláhugamálið hennar ganga eða göngutúrar. Það sem af er ári er hún búin að ganga 52 sinnum upp að Snældukletti sem er fyrir ofan Hvammstanga. „Heimilismeðlimum fjölgar enn frekar eftir örfáa daga, þegar lítil brún labradortík að nafni Monsa mætir á heimilið. Eðli málsins samkvæmt er því mikill spenningur á heimilinu og enginn tími til að velta fyrir sér flóknum uppskriftum til birtingar í þessu blaði. Eftir fjölskyldufund, sem ég ein mætti á, var ákveðið að birta sérrétt heimilisins og „brauðið góða"“, segir Elín.
RÉTTUR 1
LASANJA
2 dl mjólk
1 hvítlauksostur
1 kg hakk
lasanja plötur, t.d. Barilla
1 dós pastasósa (680 gr.), nota Hunt´s t.d. með osti og hvítlauk
300 g kotasæla
200 g MS pizzaostur
krydd, t.d. Töfrakrydd og Köd&Grill
Aðferð: Hakkið brúnað á pönnu og kryddað vel með góðum kryddum. Í uppáhaldi er Töfrakrydd frá Pottagöldrum og svo fá einhver önnur góð að fylgja með. Pastasósunni er þá bætt á pönnuna og hakkið látið malla í nokkrar mínútur á vægum hita. Á meðan hakkið kraumar er gott að græja ostasósuna, en mjólkin er hituð og litlum bitum af hvítlauksostinum bætt út í. Passa að hafa ekki of heitt og hræra reglulega í. Þriðjungur af hakkinu er settur í eldfast mót, lasanja plötur settar ofan á og því næst er 300 g af kotasælu smurt ofan á þetta fyrra lag af plötunum. Aftur er þriðjungur af hakkinu settur í eldfasta mótið og seinna lagið af plötunum. Nú er ostasósunni hellt yfir plöturnar, ásamt restinni af hakkinu og rétturinn toppaður með vænum skammti af pizzaosti, þessi frá MS í rauðu pokunum er bestur. Bakað við 180°C í 35-40 mínútur. Lasanjað er borið fram með brauðinu sem fylgir með sem réttur 2 og fersku salati.
RÉTTUR 2
Brauðið góða
Brauðið á vel með þessu lasanja sem hér er sett fram og kjúllasúpu, en sú súpa er það eina sem fyrrverandi einhleypu vinkonur mínar vilja fá í matarboðum hjá mér. Ekki misskilja, þær eru enn vinkonur mínar. Núna eru þær hins vegar meira svona….fjölhleypar. Brauðið er líka gómsætt daginn eftir með skinku, osti, grænmeti og pítusósu.
5 dl vatn
1 dl ólivíuolía
13 dl hveiti
1 msk. sykur
1 msk. þurrger
2 tsk. salt (nota flögusaltið)
Fylling:
1 dl. ólivíuolía
4 hvítlauksrif
1 msk. óreganó (þurrkað)
tæp hálf krukka af Dala
salatosti í kryddolíu (blái)
½ msk. salt , Maldon
Aðferð: Vatn hitað að 37 gráðum og gerinu bætt við. Að því loknu er olíunni, sykri og salti bætt við ásamt hveitinu. Hnoðað vel saman og látið hefast í klukkutíma á hlýjum stað. Sé brauðvél til á heimilinu er langbest að láta hana um að hefa deigið. Bökunarpappír er settur í ofnskúffu og deiginu dreift um skúffuna, í jafnri þykkt. Aftur er deigið látið hefast í 30-40 mínútur. Á meðan er fyllingin búin til, hvítlauksrifin eru pressuð, sett í krukku og hrist saman við ólivíuolíuna og óreganóið. Að lokinni seinni hefuninni eru gerðar holur um allt brauðið með fingrinum og fyllingunni penslað yfir brauðið. Því næst er fetaostinum dreift yfir brauðið ásamt saltinu. Bakið við u.þ.b. 180 gráður í 25 mín, eða þar til brauðið er komið með fallegan lit.
Verði ykkur að góðu!
Elín skorði á Þórunni Ýr Elíasdóttur á Hvammstanga að vera næsti matgæðingur Feykis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.