Kjötsúpa og konfektkaka

Ingvar Gýgjar og Eygló Amelía ásamt dóttur þeirra Áróru Eldey. MYND AÐSEND
Ingvar Gýgjar og Eygló Amelía ásamt dóttur þeirra Áróru Eldey. MYND AÐSEND

Matgæðingar vikunnar í tbl 42, 2022, voru Eygló Amelía Valdimarsdóttir, fædd og uppalin á Skagaströnd, og Ingvar Gýgjar Sigurðarson, fæddur og uppalinn á Sauðárkróki. Eygló er snyrtifræðingur að mennt en Ingvar er tæknifræðingur hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Þau hafa búið á Króknum síðan 2014 og eiga saman þrjú börn, Valdimar Eyvar fæddan 2012, Amelíu Areyu fædda 2016 og Áróru Eldey fædda 2021. 

Við njótum þess að elda góðan mat og að leyfa krökkunum að vera með í undirbúningnum. Íslenska kjötsúpan er í sérstöku uppáhaldi hjá allri fjölskyldunni og það er svo gott að ylja sér við góða súpu þegar það fer að hausta. Einnig látum við fylgja með uppskrift af ljúffengri konfektköku,“segir Eygló. 

UPPSKRIFT 1
Kjötsúpa

    800 g lambakjöt
    3 l vatn
    2 grænmetisteningar
    6 stórar gulrætur, flysjaðar og skornar í litla bita
    2 meðalstórar rófur, flysjaðar og skornar í litla bita
    ½ blómkálshöfuð, skorið í litla bita
    dass af vorlauk, skorinn smátt
    1 laukur, skorinn smátt.
    dass af súpujurtum
    haframjöl og hrísgrjón eftir smekk
    krydd eftir smekk en við notum jurtasalt, pipar og smá steikarkrydd

Aðferð: Setjið kjötið í pott og hellið köldu vatni yfir. Hitið rólega að suðu og fleytið froðu ofan af. Skerið grænmetið í litla bita og bætið út í, kryddið til með jurtasalti og pipar. Leyfið súpunni að malla undir loki að lágmarki 30 mínútur. Bætið grænmetisteningum, súpujurtum, haframjöli og hrísgrjónum saman við og leyfið súpunni að malla í 30 mínútur til viðbótar. Við sjóðum kartöflur í sér potti og berum fram með súpunni ásamt hituðu baguette brauði með smjöri.

UPPSKRIFT 2
Konfektkaka

Botnar:
    6 eggjahvítur
    200 g flórsykur
    200 g kókosmjöl

Aðferð: Aðskiljið eggin og þeytið hvíturnar með flórsykrinum (eggjarauður verða notaðar í kremið). Þeytið þar til blandan er stífþeytt. Bætið kókosmjölinu
saman við með sleif. Leggið kringlóttan matardisk á bökunarpappír og teiknið tvo hringi. Setjið deigið þar á og bakið við 180°C í um 25 mín.

Krem:
    6 eggjarauður
    100 g flórsykur
    130 g súkkulaði (ljóst og dökkt til helminga)
    130 g smjör

Aðferð: Bræðið súkkulaði og smjör í vatnsbaði og leyfið svo að kólna aðeins. Þeytið eggjarauður og flórsykur saman. Hellið súkkulaðinu varlega saman við eggjablönduna og hrærið. Setjið hluta af kreminu á milli botnanna og smyrjið afganginum ofan á tertuna. Skreytið að vild.

Verði ykkur að góðu!
Eygló og Ingvar skoruðu á vini sína, stórbændurna á Mánaskál í Skagabyggð, Kolbrúnu Ágústu Guðnadóttur og Atla Þór Gunnarsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir