Grillað og reykt
Matgæðingur í tbl 2 á þessu ári var Elísabet S.K. Ágústsdóttir en hún vinnur sem verslunarstjóri í Vélaval í Varmahlíð og býr ásamt eiginmanni sínum, Torfa, í Sunnuhlíð í Varmahlíð og hafa gert síðan 2020.
Elísabet og Torfi hafa þvælst aðeins um heiminn en þegar þau bjuggu í Saltvík á Kjalarnesi datt þeim í hug að flytja til Minnesota í Bandaríkjunum. Þar fór Torfi í skóla, Pine Technical Collage, en Elísabet fór í fjarnám frá Háskóla Íslands og voru þau í Minnesota til ársins 2013 en þá fluttu þau til Kanada, nánar tiltekið Calgary Alberta, sem má kalla villta vestrið þar í landi. Þar unnu þau í þrjú ár áður en þau fluttu aftur til Íslands og enduðu í Kópavogi og bjuggu þar þangað til þau fluttu í Sunnuhlíðina. „Planið var aldrei að flytja aftur til Íslands en maður veit víst ekki sína ævina fyrr en öll er“, segir Elísabet. Elísabet og Torfi eiga þrjú börn, Fannar er elstur og býr hjá þeim og vinnur í Olís Varmahlíð. Guðný dóttir þeirra býr í Reykjavík með fjölskyldu sinni og yngsti sonur þeirra býr einnig í Reykjavík en hann er í kokkanámi frá Menntaskólanum í Kópavogi og vinnur með skólanum á Vox restaurant á Hilton Hótel.
RÉTTUR 1
Hægreyktur nautavöðvi með þurr kryddblöndu
Veljið góðan vöðva og stóran. Við reykingu er notaður svokallaður Offset smoker en sá sem við notum er heimasmíðaður af tengdapabba, Erni H. Tyrfingssyni. Best er að taka vöðvann út nokkrum dögum áður en planað er að elda. Daginn áður skal setja vöðvann i pækil; vatn, salt, rauðvínsedik, sykur, lárviðarlauf (magn fer allt eftir því hversu stór vöðvinn er) en best er að pækillinn fleyti yfir vöðvann.
Krydd blanda:
reykt paprika
salt
pipar
hvítlauksduft
Aðferð: Einnig má setja þau krydd sem mönnum þykja góð, þó mælum við ekki með að setja Season All kryddblönduna, hún er mjög sölt. Vöðvinn er settur í heitan reykofninn góðum átta tímum fyrir kvöldmat, eða áætlaðan matmálstíma. Fylgjast þarf með vöðvanum í reyknum yfir daginn. Ekki er þörf á því að snúa meðan á reykingu stendur.
Meðlæti:
Bakaðar baunir með beikoni
Aðferð: Bakaðar baunir settar í álform og á reykinn. Beikon sett í sér form og einnig sett á reykinn. Þegar beikonið er orðið stökkt þá er það tekið og saxað niður og bætt út í baunirnar.
Heimalagað hrásalat:
hvítkál
gulrætur, rifnar niður
majones
edik
dijon sinnep
aromat blandað og sett út á
Allt borið fram saman eftir að kjötið hefur setið í um 10 mín.
RÉTTUR 2
Grillaðar sesam kjúklingabringur með fersku salati
6 stk meðalstórar
kjúklingabringur
kikoman sojasósa (sölt)
sesamfræ
Aðferð: Sesamfræin ristuð og kramin yfir meðalhita. Sojasósa sett út í og penslað á bringurnar. Bringurnar látnar liggja í leginum í tíu mínútur áður en settar á grillið. Passa að grilla bringurnar alveg í gegn, þó ekki svo að þær ofþorni.
Salat:
klettasalatblanda
gúrka
paprika
fetaostur
rauðlaukur
sólblómafræ
sólþurrkaðir tómatar
Aðferð: Skorið eftir smekk, blandað og borið fram. Oft borið fram með bökuðum kartöflum, þó er það smekksatriði.
Verði ykkur að góðu!
Að lokum tilnefndu þau Gulla og Helgu í Hátúni sem næstu matgæðinga Feykis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.