Fyllt grísalund og Oreo ostakaka

Gestur, Erna og Eydís Anna í aftari röð. Fyrir framan eru Brynja, Sigurjón Elís og 
Freyja. MYND AÐSEND
Gestur, Erna og Eydís Anna í aftari röð. Fyrir framan eru Brynja, Sigurjón Elís og Freyja. MYND AÐSEND

Matgæðingar vikunnar eru Gestur Sigurjónsson, kennari í Árskóla, og Erna Nielsen, bókari hjá RH endurskoðun. Gestur og Erna búa á Skagfirðingabraut ásamt fjórum af sex börnum þeirra. Kristu Sól (21), Sigurjóni Elís (10), Brynju (7) og Freyju (7) og hundinum Kappa (2).

Elías Hrafn (26) býr í Bandaríkjunum og Eydís Anna (19) býr á Sauðárkróki. Gestur er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki, Erna kemur frá Eskifirði en hefur búið í Skagafirðinum í 20 ár. Þau kunna bæði afar vel við sig í eldhúsinu en skipta með sér hlutverkum þegar mikið stendur til. Erna sér þá yfirleitt um eftirréttinn á meðan Gestur eldar.

AÐALRÉTTUR
Fyllt grísalund

    400 g grísalund

Kryddblanda:
    1 tsk. svartur pipar
    1 tsk. reykt paprika
    1 tsk. hvítlauksduft
    ½ tsk. salt
    ½ tsk. rósmarín
    ½ tsk. timian

Aðferð: Svínalundin skorin endilangt en alls ekki í sundur. Henni er komið fyrir á bretti og svo er henni flett í sundur. Þá er gott að ná í lítinn pott, setja plastfilmu yfir lundina og slá létt á hana með pottinum, þannig að hún fletjist örlítið meira út. Stráið kryddblöndunni yfir lundina báðum megin og nuddið kryddinu örlítið í kjötið.

Fylling:
    2 stk. skarlottlaukar, fínt saxaðir
    4 stk. hvítlauksrif, fínt söxuð
    smá bútur af engifer u.þ.b. 1 cm, fínt saxað
    20 g sólþurrkaðir tómatar, fínt saxaðir
    3 - 4 beikonsneiðar, kurlað
    ferskt timian, saxað fínt þannig að það rúmist í teskeið
    fersk salvía, söxuð fínt þannig að hún rúmist í teskeið
    5 stk. sveppir, smátt skornir en ekki saxaðir
    hálf lúka af spínati
    100 g kotasæla
    100 g valhnetur, saxaðar.

Aðferð: Brúnið beikonið og takið það til hliðar. Mýkið laukinn örlítið á pönnunni áður en þið bætið við engifer og hvítlauk í örfáar sekúndur og þá má setja tómatana og sveppina saman við. Þegar að sveppirnir eru aðeins mjúkir, setjið spínatið, timianið og salvíuna. Hreyfið til á pönnunni þannig að spínatið dragist saman. Smá salt og pipar. Fyllingin er sett í skál og kotasælunni, valhnetunum og beikoninu er bætt við og hrært saman. Fyllingunni er komið fyrir á miðri lundinni og hún svo tekin saman með kjötgarni. Lundin er brúnuð á pönnu og fer svo inn í 180°C heitan ofn í 10-15 mínútur. Leyfið kjötinu að hvíla í tíu mínútur þegar það kemur úr ofninum.

Tzatziki sósa:
Best að gera degi áður.

    1 stk agúrka
    400-500 g grísk jógúrt.
    2–4 stk. hvítlauksrif, eftir því hvað fólk er hrifið af hvítlauk (við notum oftast fjóra)
    cayenne pipar – hnífsoddur
    safi úr hálfri eða heilli sítrónu
    söxuð myntulauf, ekki mikið, það má einnig nota dill eða jafnvel steinselju.

Aðferð: Gúrkan er flysjuð og svo er hún rifin niður með rifjárni og sett í skál. Athugið að nota grófasta hluta rifjárnsins og alls ekki setja gúrkuna í matvinnsluvél. Við viljum losna við allan vökva úr gúrkunni þannig að það er gott að salta hana örlítið og hreyfa til með gafli en leyfa henni síðan að vera í tíu mínútur. Þá dregst talsvert vatn úr henni. Þá er henni komið fyrir í viskastykki eða góðum pappír og sá safi sem enn er í gúrkunni er kreistur úr henni. Gúrkunni er því næst blandað saman við jógúrtið og hvítlauk, cayenne pipar, sítrónusafa og steinselju blandað saman. Salt og pipar og smakkið sósuna. Bætið við ef að eitthvað vantar. Lokið og geymið sósuna í ísskáp yfir nótt. Þessi sósa er í miklu uppáhaldi hjá okkur og við notum hana við mörg tækifæri. Fátt er t.d. betra en grillað lamb og nota Tzatziki sósuna með.

Meðlæti: Ferskt salat og bökuð sæt kartafla í teningum.

EFTIRRÉTTUR
Oreo ostakaka
    3 pakkar Oreo kex, mylja í matvinnsluvél
    115 g smjör
    800 g rjómaostur
    200 g sykur
    1 stk. sýrður rjómi
    1 tsk. vanilludropar
    4 stk. egg
    200 g suðusúkkulaði

Aðferð: Bræðið helminginn af smjörinu og blandið saman við 2/3 af mulningnum. Setjið í botninn á bökunarformi og þjappið vel. Hrærið rjómaosti og sykri saman og bætið sýrða rjómanum og vanilludropum út í. Setjið egg út í, eitt í einu þar til það hefur blandast vel saman. Takið afganginn af Oreo-mulningum og bætið saman við rjómaostablönduna. Hellið þessu síðan yfir botninn. Bakið í u.þ.b. 45 mínútur við 165°C og leyfið að kólna í um 20 mínútur. Bræðið súkkulaðið og afganginn af smjörinu saman og hellið yfir kökuna. Setja kökuna í kæli í a.m.k. fjóra tíma.

Verði ykkur að góðu!

Gestur og Erna skora á vini sína Guðbrand Ægi Ásbjörnsson og Guðrúnu Brynleifsdóttur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir