Fiskisúpa og einfaldasta eplakaka í heimi

Hjónin Auðunn Sigurðsson og Berglind Björnsdóttir á Blönduósi deildu fyrir nokkrum misserum uppskriftum sínum með lesendum Feykis. Við endurbirtum þær hér. Þau segjast ekki vera mikið forrétar fólk og vilji frekar eiga gott pláss fyrir eftirrétt.

Fiskisúpa með grænmeti

  • 2 ds Hunts Original garlic (eða sambærilegar sósur)
  • 3 bollar vatn
  • 1/2 bolli saxaður laukur
  • 1/2 bolli saxaðar gulrætur
  • 1/2 bolli söxuð paprika
  • 1 peli rjómi/matreiðslurjómi
  • 1/2 kjúklingateningur
  • 1 msk púðursykur
  • 250 g rækja eða annar fiskur

Steikið grænmetið í potti og setjið tómatkryddsósuna út í.

Bætið hinu við nema rækjum og hrærið vel saman.

Látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur.

Setjið rækjurnar út í þegar súpan er fullsoðin, en ef notaður er fiskur má setja hann út í súpina í bitum 5 mínútum áður en súpan er tekin af hellunni.

250 g af fiskmeti er ekki mikið, þannig að ef þið óskið eftir meiri fiski-súpu má alveg bæta við meira fiskmeti.

Borið fram með brauði - t.d. Óreganóbrauði.

Óreganóbrauð

  • 8 dl sigtimjöl
  • 6 1/2 dl hveiti
  • 1 msk sykur
  • 2 1/2 tsk þurrger
  • 2 tsk gróft salt
  • 1 msk óreganó
  • 4 dl léttmjólk
  • 1 dl súrmjólk
  • 1/2 dl matarolía
  • 4 pressuð hvítlauksrif
  • 1 egg til penslunar

Skraut: Óreganó og gróft salt

Blandið þurrefnunum saman.

Geymið 1-2 dl af hveitinu.

Hrærið saman mjólk, súrmjólk, matarolíu og hvítlauk og bætið út í þurrefnin.

Látið deigið hefast á hlýjum stað í eina og hálfa klukkustund.

Hnoðið deigið á hveitistráðu borði, bætið hveiti í ef þarf.

Fletjið deigið út í 28x40 cm og leggið á bökunarpappír og í ofnskúffu.

Skerið rákir hálfa leið ofan í deigið svo ferningar myndist (4x4 cm).

Látið deigið hefast á hlýjum stað í 45 mínútur.

Penslið brauðið með sundurslegnu eggi og stráið óreganó og grófu salti yfir.

Bakið í miðjum ofni við 225 gráðu hita í 20 mínútur.

Einfaldasta eplakaka í heimi

  • 3-4 epli
  • kanilsykur
  • 200 g rjómasúkkulaði
  • 125 g mjúkt smjör
  • 125 g hveiti
  • 125 g sykur

Eplin eru skorin niður í hæfilega bita og kanilsykri stráð yfir.

Rjómasúkkulaði skorið niður og stráð þar yfir. (Í upprunalegu uppskriftinni eru súkkulaðirúsínur og salthnetur).

Hveiti, sykur og smjör er klipið saman með höndunum og dreift yfir epli og súkkulaði.

Bakað við 200 gráður þar til fallega brúnt á litinn.

Kakan er borin fram með ís og/eða þeyttum rjóma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir